Ófeimnir afbrotamenn

Eflaust er það merki um breytingar í undirheimum Íslands þegar menn sem dregnir eru fyrir dóm reyna ekki að hylja andlit sitt heldur skarta því frekar sem fyrirsætur. Hugsanlega hafa þeir engu að tapa en einnig gætu þeir verið að senda skýr skilaboð.

Á dögunum greindi mbl.is frá því að þingfest hefði verið ákæra yfir Stefáni Loga Sívarssyni, Stefáni Blackburn og þremur öðrum karlmönnum í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Þeir eru ákærðir fyrir stórfelldar líkamsárásir og frelsissviptingu.

Eins og hefðbundið er voru þeir færðir fyrir dómara í morgun og látnir svara til saka. Það sem hins vegar var óvenjulegt var að hvorki Stefán Logi né Stefán Blackburn gerðu minnstu tilraun til að hylja andlit sitt.

Fyrir þá sem fylgjast með sakamálum sem koma fyrir dóm er eðlilegt að sjá ekki sakborninga fyrr en dómari málsins er kominn í dómsal og ljósmyndarar reknir á brott. Undantekning á þessu var þó þegar réttað var í máli gegn nokkrum útlendingum fyrir mansal.

Íslenskir menn hafa hins vegar frekar valið að hylja sig fyrir fjölmiðlum. Það átti ekki við um Stefán Loga og Stefán Blackburn í morgun. Þeir gerðu enga tilraun til að hylja andlit sitt.

„Þeim virðist sama. Þeir eru komnir út á kant, út á jaðarinn og eru í raun að setja fingurinn upp gegn samfélaginu,“ segir Helgi Gunnlaugsson, prófessor í félagsfræði og afbrotafræðingur við HÍ. „Þeir virðast vera komnir á þann stað í lífinu að þetta er bara eðlilegt. Það þarf engan feluleik gagnvart fjölskyldu eða öðrum.“

Helgi nefnir líka að þetta geti verið hluti af þeirri glamúrvæðingu glæpamanna sem hefur verið gagnrýnd á undanförnum árum. Fór hún líklega hæst með einkaviðtölum við Jón Hallgrímsson en hann lýsti því afdráttarlaust að hann rukkaði fólk fyrir pening. Jón varð  bráðkvaddur fyrr á þessu ári.

Helgi segir að sú hegðun að fela sig ekki sé hluti af þessari sömu glamúrvæðingu, að sakaðir menn standi keikir og feli sig ekki eins og þeir sem telja sig hafa eitthvað að fela. Þeir hafi sætt sig við það hlutverk að vera glæpamenn. „Þetta er hugmyndafræði þar sem menn réttlæta ákvarðanir sínar og gjörðir út frá sínum eigin hugsjónum og iðrast ekki.“

Hvað varðar það að hylja sig ekki fyrir fjölmiðlum þá telur Helgi að þeir sjái einfaldlega ekki leið aftur inn í samfélagið, hafi sætt sig við örlög sín og hafi þar af leiðandi engu að tapa. Þeir hafi brennt allar brýr að baki og þeim sé beinlínis sama um það hvort andlit þeirra sjáist eða ekki.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert