Þyrfti að hækka iðgjaldið í 20,1%

Sveinn Arason ríkisendurskoðandi og Lárus Ögmundsson yfirlögfræðingur Ríkisendurskoðunar.
Sveinn Arason ríkisendurskoðandi og Lárus Ögmundsson yfirlögfræðingur Ríkisendurskoðunar. Morgunblaðið/Ómar

Samkvæmt tryggingafræðilegu mati þarf að hækka heildariðgjald til A-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR) úr 15,5% í 20,1% til að tryggja að eignir hennar geti staðið undir bæði áunnum réttindum og reiknuðum framtíðarréttindum sjóðfélaga. Ríkisendurskoðun bendir á að viðbótarútgjöld ríkissjóðs vegna þessa gætu numið allt að 4,5 milljörðum króna á ári.

Þetta kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd og niðurstöður fjárhagsendurskoðunar hjá ríkinu fyrir árið 2012. Tryggingafræðileg staða A-deildar LSR var neikvæð um 12,5% á árinu 2012 en hefur batnað um 0,6 prósentustig frá fyrra ári. Fjármálaeftirlitið hefur bent á mikilvægi þess að hækka iðgjöld til að ná sjóðnum í jafnvægi.

Tryggingafræðileg staða A-deildar LSR var neikvæð um 12,5% árið 2012 en til samanburðar var hún neikvæð um 13,1% árið 2011. Frá árinu 2000 hefur tryggingafræðileg staða A-deildar LSR ætíð verið neikvæð.

Í síðasta mánuði samþykkti Alþingi lög sem heimila lífeyrissjóðum að hafa meira en 10% mun milli eignaliða og lífeyrisskuldbindinga samfellt í allt að sex ár frá og með árinu 2008.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert