Varnaráhrifin af innilokun fanga ofmetin

Þingmennirnir Brynjar Níelsson og Jóhanna María Sigmundsdóttir.
Þingmennirnir Brynjar Níelsson og Jóhanna María Sigmundsdóttir. mbl.is/Eggert

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði á Alþingi í dag að þingið ætti að velta því fyrir sér hvort hægt væri að beita úrræðum eins og rafrænu eftirliti með sakamönnum og reynslulausn fanga í meiri mæli en nú sé gert.

Sagði Brynjar að slíkt myndi augljóslega spara ríkinu mikið fé og vísaði til skriflegs svars innanríkisráðherra við fyrirspurn Silju Daggar Guðmundsdóttur í gær. Þar kom fram að meðalkostnaður á hvern fanga í rafrænu eftirliti væri 2,1 milljón á ári en kostnaður á hvern fanga í fangelsum væri 7,1 milljón á ári.

„Það eru fæstir fangar þannig, að nauðsynlegt sé að þeir séu í öryggisfangelsi. Mestallan hluta starfsævi minnar hef ég verið með föngum og ég get fullyrt það og þið getið treyst mér í því, að við þurfum ekki að hafa svona miklar áhyggjur. Ég held að menn ofmeti varnaráhrifin af innilokun. Með flesta er það þannig, að það er þeim erfiðast að fá dóminn sjálfan," sagði Brynjar. Skoraði hann á Alþingi, að ræða þessi mál og koma með lausnir, sem væru til góðs fyrir samfélagið, bæði fjárhagslega og fyrir þá sem lentu í þessari stöðu.

Róbert Marshall, þingmaður Bjartrar framtíðar, tók undir með Brynjari, að mikið væri hægt að spara í fangelsismálum og ekki síður væri hægt að standa sig betur í að endurhæfa fanga og nýta meira samfélagsþjónustu.

Lýsti Róbert þeirri skoðun, að of fast væri tekið á ungum eiturlyfjasjúklingum, sem hefðu leiðst inn á þá braut að gerast burðardýr fyrir smyglara en þetta fólk fengi oft afar þunga dóma. Frekar ætti að beina þessum ungmennum inn á menntabraut og reyna að endurhæfa þau. Annars væri líkur á að þau kæmu aftur út í samfélagið sem forhertir glæpamenn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert