Fjárhagsaðstoð sveitarfélaga á árinu 2012 nam samtals um 4,1 milljarði króna og þar af var hún 2,7 milljarðar hjá Reykjavíkurborg. Borgin veitir þeim sem þurfa á fjárhagaðstoð að halda talsvert hærri greiðslur en nágrannasveitarfélögin.
Kostnaður sveitarfélaganna við fjárhagsaðstoð jókst mikið eftir hrun. Kostnaðurinn var rúmlega 1,8 milljarðar árið 2007, en var 4,1 milljarður í fyrra. Árið 2007 fengu 4.280 einstaklingar fjárhagsaðstoð en þeir voru 7.715 í fyrra.
Sveitarfélögunum ber samkvæmt lögum skylda til að veita fólki fjárhagsaðstoð sem ekki getur framfært sig. Til að eiga rétt á fjárhagsaðstoð þarf viðkomandi að hafa fullnýtt sér rétt til annarra greiðslna, s.s. frá Tryggingastofnun, Atvinnuleysistryggingasjóði, lífeyrissjóðum og sjúkrasjóðum tryggingafélaga. Flest sveitarfélög hafa sett sér reglur um fjárhagsaðstoð.
Útgjöld sveitarfélaganna vegna fjárhagsaðstoðar hafa aukist vegna atvinnuleysis og fjárhagserfiðleika fólks. Hluti þeirra sem hafa verið að fá fjárhagsaðstoð í ár og í fyrra hafa fengið hana vegna þess að þeir hafa fullnýtt sér rétt til atvinnuleysisbóta, þ.e. hafa verið án vinnu í þrjú ár eða meira.
Langstærstur hluti þeirra sem fá fjárhagsaðstoð er ungt fólk. Tæplega 75% þeirra sem fengu fjárhagsaðstoð árið 2011 er fólk sem er 18-39 ára. Einstæðir barnlausir karlar eru stærsti hópurinn eða 3.336 af 7.715 sem fengu aðstoð árið 2011. Einstæðar mæður voru 2.066 það ár.
Fjárhagsaðstoðin er mishá milli sveitarfélaga. Hæst er hún hjá Reykjavíkurborg. Þar getur aðstoð einstaklings verið allt að kr. 163.635 á mánuði og kr. 245.453 á mánuði til hjóna eða fólks í sambúð. Aðstoðin er óháð barnafjölda þar sem reiknað er með að barnabætur, meðlög og barnalífeyrir mæti kostnaði vegna barna. Vaxtabætur og húsaleigubætur mæta mismunandi kostnaði vegna húsnæðis.
Á Akureyri getur aðstoð til einstaklings verið allt að kr. 144.359 á mánuði og kr. 230.974 á mánuði til hjóna eða fólks í sambúð.
Fjárhagsaðstoð til einstaklings í Reykjanesbæ getur verið allt að kr. 135.173 á mánuði.
Í Kópavogi er grunnfjárhæðin kr. 147.700 fyrir einstakling en kr. 236.320 fyrir hjón eða sambýlisfólk. Í Hafnarfirði er grunnupphæðin kr. 148.938 og á Akureyri er upphæðin kr. 144.359.
Samkvæmt kjarasamningi Eflingar við Samtök atvinnulífsins eru byrjunarlaun samkvæmt lægsta taxta kr. 191.752 á mánuði. Eftir eitt ár í starfi eru launin kr. 193.317.