Fá augnablikið aldrei aftur

Aron Einar Gunnarsson og Eiður Smári Guðjohnsen fagna eftir leikinn …
Aron Einar Gunnarsson og Eiður Smári Guðjohnsen fagna eftir leikinn í gær. Mbl.is/Eva Björk

„Ég vildi bara fá að sjá það sem var í sjónvarpinu og varð fyrir jafn miklum vonbrigðum og þjóðin,“ segir Sigþór Sigurjónsson, kenndur við Bakarameistann, en klippt var á útsendingu RÚV frá leik Íslands og Noregs í gærkvöldi, rétt áður en ljóst var að Ísland hefði tryggt sér sæti í umspili um laust sæti á HM. Að sögn Kristínar Hörpu Hálfdánardóttur, íþróttastjóra RÚV, liggja mistök RÚV í  því að að meta sem svo að norska sjónvarpið væri hætt að sýna frá leiknum.

Mistökin út úr kortinu

Leikur Íslands og Noregs var sýndur í beinni útsendingu á Ríkisútvarpinu í gærkvöldi. Leikurinn endaði með jafntefli og skiptu úrslit í leik Slóveníu og Sviss, sem fór fram á sama tíma, því miklu máli fyrir íslenska liðið. Klippt var á útsendinguna rétt áður en ljóst var að Ísland hefði tryggt sér sæti í umspili um laust sæti á HM og blöstu auglýsingar við landsmönnum sem misstu um leið af fögnuði leikmanna íslenska landsliðsins á Ullevaal-leikvanginum í Ósló.

Fyrsta auglýsingin á skjánum var auglýsing frá Bakarameistaranum, en svo ótrúlega vill til að eigandi fyrirtækisins er Sigþór Sigurðsson, faðir Kolbeins Sigþórssonar, eins helsta markaskorara liðsins. Sigþór er að vonum í skýjunum yfir frammistöðu sonarins og liðsins í heild en harmar þó að þessi mistök hafi verið gerð í útsendingunni og auglýsing Bakarameistarans hafi birst landsmönnum í stað kampakátra landsliðsmanna.

„Við stjórnum víst ekki ferðinni í sjónvarpinu. Þetta er alveg út úr kortinu og ekki í fyrsta skipti sem þetta kemur fyrir,“ segir Sigþór. „Ég vil að sjálfsögðu ekki hafa þetta svona. Maður bíður eftir úrslitunum, vill heyra umræðuna.“

Sigþór ítrekar að hann hafi ekki átt neinn þátt í því að auglýsingin hafi birst á þessum óheppilega tíma. „Auglýsingin er aukaatriði, við erum að styrkja íslenska knattspyrnu,“ segir hann. „Ég vona að ég þurfi ekki að hætta að auglýsa vegna þessa mistaka.“

Hefðum átt að hanga á hnettinum

Að sögn Kristínar Hörpu Hálfdánardóttur, íþróttastjóra RÚV, gilda ákveðnar starfsvenjur eða svokölluð alþjóðleg merki varðandi útsendingar frá landsleikjum í útlöndum. Sýnt er frá ákveðnum augnablikum, líkt og því þegar liðin mæta á völlinn, þegar þjóðsöngvar eru fluttir, þegar sigurliðið fagnar í leikslok, þegar þjálfarar heilsast og fleiri stundum sem fótboltaáhorfendur þekkja vel. Samkvæmt þessum viðmiðum í alþjóðlegum útsendingum ber að sýna í fimm mínútur frá vellinum eftir að leikurinn er flautaður af.

„Leikurinn er flautaður af, Norðmennirnir framleiða sitt merki eins og venjulegt er en virðast ekki átta sig á því hvað er í húfi hjá íslenska liðinu,“ segir Kristín. Í lokin var klippt í vítt skot, sem er yfirleitt merki um að útsendingu sé að ljúka. „Þá metur íslenski útsendingarstjórinn sem svo að það sé ekkert að gerast.“

Þarna þurfti að taka ákvörðun um hvað ætti að gera næst, hvort beðið yrði og vonast eftir betra skoti af íslenska liðinu eða hvort skipta ætti yfir í stúdíó með auglýsingum á undan. Kristín segir að tekin hafi verið ákvörðun um að skipta yfir í stúdíó en um leið virðast Norðmennirnir hafa rankað við sér og byrja að sýna fagnaðarlætin. Stundin þegar íslensku landsliðsmönnunum bárust gleðitíðindin er þó ekki til á myndbandi, heldur aðeins á myndskeiðum úr farsímum og myndavélum.  

Að sögn Kristínar liggja mistök RÚV í  því að að meta sem svo að norska sjónvarpið væri hætt að sýna frá leiknum. „Við hefðum átt að hanga á hnettinum og bíða þar til við færum í svart, við hefðum átt að taka sénsinn,“ segir Kristín. „Það er gott að vera vitur eftir á og ef til vill hefði verið hægt að koma í veg fyrir þetta. Í öllum okkar undirbúningi, hvarflaði það ekki að okkur að við fengjum fagnaðarlætin ekki í alþjóðlega merkinu. Við hefðum þó aldrei fengið mómentið sem við sjáum svo mikið eftir.“ Aðspurð segir Kristín að ekki sé í raun hægt að kenna Norðmönnunum um mistök við útsendinguna. „Þeir voru búnir að uppfylla sínar skyldur en það er þó spurning hvort þeir hefðu átt að lesa betur í það sem var að gerast á vellinum,“ segir hún.

Kristín segir að starfsmenn RÚV séu vissulega mjög svekktir vegna atviksins. „Við erum áhorfendur eins og aðrir en til viðbótar berum við ábyrgð á því að koma þessu til landsmanna.“

Kolbeinn Sigþórsson. liðsmaður íslenska karlalandsliðsins í fótbolta og sonur Sigþórs …
Kolbeinn Sigþórsson. liðsmaður íslenska karlalandsliðsins í fótbolta og sonur Sigþórs Sigurðssonar, Bakarameistara. Eva Björk Ægisdóttir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert