„Það kallar á skýringar, hvað veldur andstöðu forsætisráðherrans og einstakra þingmanna Framsóknarflokksins við áform um nýjan Landspítala.“ Þetta sagði Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar á Alþingi í dag. Benti hann á mikilvægi þess að heilbrigðismálin séu í forgangi þegar forgangsraða á í ríkisfjármálum.
Fyrr í dag sagði Mbl.is frá því að þrír þingmenn úr þremur flokkum eru fyrstu flutningsmenn tillögu um að hraða byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík.
Þorsteinn Magnússon, þingmaður Framsóknarflokksins tók þá til máls um sama efni. Hann tók undir þau orð Helga um að forgangsraða yrði í þágu heilbrigðismála, en að brýnna sé að endurnýja tækjakost og styrkja innviði spítalans, heldur en að hefja byggingu nýs spítalahúsnæðis. Þorsteinn benti svo á verkefni sem hægt væri að bíða með til þess að auka fjármagn til heilbrigðismála. „Ég vil nefna atriði sem minna máli skipta, þótt mikilvæg séu. Í því fjárlagafrumvarpi sem liggur fyrir í þinginu var gert ráð fyrir 5 mia króna í viðhaldsverkefni á vegum vegagerðarinnar, stofnkostnaðar vegna framkvæmda 8,2 mia króna og 1 mia króna í stofnkostnað vegna nýrrar fangelsisbyggingar. Þetta eru allt eflaust brýn verkefni, en tæplega jafnbrýn og það verkefni að hlúa að þeim sem eru sjúkir.“