Kampavínsstaðir verði bannaðir

Þingsályktunartillaga sem miðar að því að bann verði lagt á starfsemi svokallaðra kampavínsstaða, var lögð fram á Alþingi í dag. Björk Vilhelmsdóttir og Árni Páll Árnason eru meðal flutningsmanna tillögunnar.

Samkvæmt tillögunni verður iðnaðar- og viðskiptaráðherra falið að taka til endurskoðunar lög og stjórnvaldsfyrirmæli sem snúa að veitingu rekstrarleyfa fyrir veitingastaði í þeim tilgangi að koma í veg fyrir rekstur veitingastaða sem gera út á nekt starfsfólks og aðgang að því í einkarými, svokallaðra kampavínsstaða.

„Það er von flutningsmanna að með samþykkt þessarar tillögu og í kjölfar endurskoðunar á nauðsynlegum lögum og stjórnvaldsfyrirmælum megi koma í veg fyrir rekstur staða sem gera út á nekt starfsfólks og fara með því gegn siðgæðisvitund þorra fólks og vinna gegn réttindum kvenna,“ segir m.a. í greinagerð með tillögunni.

Þá telja flutningsmenn það einnig furðu sæta að þrátt fyrir bann við nektardansi og einkadansi skuli enn vera hægt á nektarstöðum borgarinnar að kaupa sér aðgang að fáklæddu starfsfólki staðanna, sem eru stúlkur, í einkarými, undir því yfirskini að þar fari ekki fram einkadans eða annað sem brýtur gegn lögum, heldur aðeins kampavínsdrykkja og spjall undir fjögur augu. „Þetta er að sjálfsögðu fráleitt að mati flutningsmanna og nauðsynlegt að koma í veg fyrir að veitingastaðir geti selt aðgang að starfsfólki sínu í einkarýmum, jafnvel með sérstöku lagaákvæði þar um, enda vandséð að þörf sé fyrir eðlilega veitingastarfsemi að selja aðgang að fáklæddu starfsfólki í einkarýmum.“

Í greinargerðinni segir að lögreglu verði að vera heimilt í umsögn sinni og ákvörðun um leyfisveitingu að líta til þess hvort líklegt sé að inni á stöðunum sé stunduð refsiverð háttsemi annaðhvort að tilstuðlan rekstraraðila eða með leyfi hans.

Þá er það skoðun flutningsmanna tillögunnar að ljóst megi vera að enn eru uppi þær aðstæður að staðirnir eru „gott skálkaskjól fyrir ólöglega starfsemi sem kann að þrífast þar í skjóli löglegrar starfsemi sem virðist nú til dags að miklu leyti felast aðeins í að selja dýrt kampavín.“


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert