Dæmi eru um að útigangsmenn hafi verið fengnir til þess að skrá sig fyrir félögum á leið í gjaldþrot til þess að firra fyrri eigendur ábyrgð. Í seinni tíð eru hins vegar ákveðnir aðilar farnir að taka slík verkefni að sér sem ekki er kannski eins annt um mannorð sitt og margir aðrir með það fyrir augum að maka krókinn áður en félögin fara endanlega í þrot.
Þetta er meðal þess sem fram kom á blaðamannafundi í dag þar sem Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands (ASÍ), kynnti 16 tillögur sambandsins til þess að sporna gegn kennitöluflakki hér á landi og þar með draga úr því samfélagslega tjóni sem það veldur. Í stuttu máli felst kennitöluflakk í skipulagðri aðgerð þar sem verðmæti eru flutt úr einu félagi í annað en skuldir og aðrar skuldbindingar skildar eftir í fyrra félaginu sem síðan er sett í þrot.
„Mörg dæmi eru um keðju slíkra gjörninga vegna sama rekstursins þar sem sömu einstaklingar eru í forsvari,“ segir í skýrslu ASÍ þar sem tillögurnar er að finna. Ennfremur að einnig séu þekkt dæmi um einstaklinga í persónulegum ábyrgðum sem flytji eignarhald og verðmæti yfir á aðra einstaklinga, þá gjarnan maka, áður en þeir sjálfir fara í þrot sem og dæmi þar sem bankamenn hafi flutt persónulegar ábyrgðir yfir í einkahlutafélög.
Benti Halldór á að sá einstaklingur sem tengdist flestum gjaldþrotum félaga á síðustu sjö árum hefði komið að 29 gjaldþrotum. Næstur í röðinni hefði komið að 22 gjaldþrotum og sá þriðji 20. Fram kemur í gögnum ASÍ með tillögunum að fullyrða megi að slík athæfi kosti íslenskt samfélag tugi milljarða króna á ári. Sá kostnaður lendi einkum á sameiginlegum sjóðum þegar ekki er staðið skil á opinberum gjöldum eins og til að mynda virðisaukaskatti og vörslugjöldum sem og launagreiðslum sem síðan lentu á Ábyrgðasjóði launa. Venjan væri sú að þegar slík félög væru tekin til gjaldþrotaskipta fengist ekkert upp í kröfur.
Ríkari kröfur og meiri ábyrgð
Tillögur ASÍ ganga meðal annars út á það að ríkari kröfur verði gerðar til þeirra félaga og einstaklinga sem fá heimild til þess að stofnsetja og vera í forsvari fyrir félög með takmarkaða ábyrgð en þeirra sem bera fjárhagslega ábyrgð. Sátt vegna skattalagabrota leiði til missis hæfis á sama hátt og dómur fyrir refsiverðan verknað.
Gerð verði krafa um aukið hlutafé við stofnun félags með takmarkaða ábyrgð og tryggt að það sé greitt. Skilyrði verði ennfremur sett að þeir sem séu í forsvari fyrir félag með takmarkaða ábyrgð hafi sótt viðurkennt námskeið um rekstur slíkra félaga. Heimild verði fyrir hendi til þess að sekta forsvarsmenn félaga sem ekki standa skil á ársreikningi.
Ennfremur verði sett takmörk á nafnabreytingar félaga með takmarkaða ábyrgð og girt fyrir heimildir aðila sem tengdir eru slíkum félögum til þess að taka fé út úr þeim með lánum eða öðrum hætti. Sömuleiðis verði settar viðmiðunarreglur um það hvenær meintar skuldbindingar vegna félaga með takmarkaða ábyrgð flytjist yfir á forsvarsmennina.
Þá verði heimild til þess að framkvæma slit á óvirkum félögum flutt og fylgt eftir af festu. Opinberir aðilar marki sér heildstæða stefnu um aðkomu sína sem kröfuhafar að þrotabúum félaga með takmarkaða ábyrgð.