Kristján L. Möller, Samfylkingu, Brynjar Níelsson, Sjálfstæðisflokki, og Guðmundur Steingrímsson, Bjartri framtíð, eru fyrstu flutningsmenn tillögu til þingsályktunar um að lokið verði eins fljótt og unnt er undirbúningi að byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík. Hafist verði handa við byggingu hans í beinu framhaldi. Sjö Samfylkingarþingmenn eru meðflutningsmenn á tillögunni sem lögð hefur verið fram á Alþingi. Þingmennirnir vilja að efnt verði til þjóðarátaks um byggingu nýs spítala.
Í tillögunni er gert ráð fyrir því að Nýr Landspítali ohf. eða ríkissjóður fái heimild til að taka lán fyrir byggingarkostnaði. Þá er lögð áhersla á að ríkisstjórnin veiti fullan atbeina til að ljúka megi verkinu, hún inni af hendi stjórnvaldsathafnir og leggi nauðsynleg lagafrumvörp fram á Alþingi,segir í tilkyningu frá þingmönnunum.
„Verði ekki af endanlegri sameiningu Landspítalans munu miklir fjármunir tapast. Rekstur Landspítala í núverandi mynd er mjög óhagkvæmur vegna þess hve dreifð starfsemin er. Hún fer fram á 17 stöðum víða um höfuðborgarsvæðið, í um 100 húsum. Rekstrarlegur ávinningur af endanlegri sameiningu Landspítalans gæti numið um það bil 2,6 milljörðum króna á ári miðað við verðlag ársins 2010. Það samsvarar um það bil 6,5% af rekstrarkostnaði spítalans árið 2012, á verðlagi þess árs,“ segir í greinargerð sem fylgir tillögunni en hana er hægt að lesa hér
Þingmennirnir tiltaka þrjá möguleika varðandi fjármögnun.
„Í fyrsta lagi væri hægt að fara hefðbundna leið fjármögnunar ríkisframkvæmda, en það myndi hafa í för með sér sársaukafullan niðurskurð á öðrum sviðum til margra ára. Ekki er víst að þau jákvæðu áhrif sem spítalabyggingin mun hafa í för með sér vegi upp á móti neikvæðum áhrifum slíks niðurskurðar.
Í öðru lagi gæti Nýr Landspítali ohf. eða ríkissjóður sjálfur fjármagnað bygginguna með lántöku. Benda má á að hinn 4. nóvember 2009 undirrituðu fulltrúar tuttugu lífeyrissjóða, og heilbrigðis-, forsætis- og fjármálaráðherrar fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, viljayfirlýsingu um að hefja samstarf við undirbúning að fjármögnun og framkvæmdum. Talið er að svo mikil hagræðing verði í rekstri nýs spítala undir sama þaki að þeir fjármunir sem sparast muni standi undir árlegum afborgunum og vöxtum af lánum.
Í þriðja lagi væri hægt að fjármagna spítalabygginguna með sérstakri tekjuöflun, til dæmis þannig að tiltekinn hluti andvirðis af framtíðarsölu ríkiseigna rynni til byggingarinnar. Einnig mætti hugsa sér að slík fjárveiting væri notuð til að greiða inn á lán sem tekin yrðu og lækka þar með bæði höfuðstólinn og vaxtagreiðslur,“ segir í tilkynningu.