Meirihluti Austurríkismanna er hlynntur því að viðræður haldi áfram um aðild Íslands að Evrópusambandinu samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar sem unnin var fyrir austurrísku rannsóknastofnunina Österreichische Gesellschaft für Europapolitik.
Þannig eru 55% Austurríkismanna hlynnt áframhaldandi viðræðum um aðild Íslands að ESB samkvæmt fréttavefnum Friedlnews.com í dag. Þarlendir kjósendur eru hins vegar ekki eins spenntir fyrir sumum öðrum ríkjum sem sótt hafa um aðild að sambandinu eða hafa lýst áhuga sínum á henni. Þannig eru 52% andvíg aðild Makedóníu og Svartfjallalands að ESB og 66% vilja ekki Kosovo í sambandið.
Þá telur meirihluti Austurríkismanna frekari stækkun ESB ekki forgangsmál samkvæmt skoðanakönnuninni. Um 75% þeirra telja hana lítt mikilvæga eða alls ekki mikilvæga. Hins vegar telja 86% aukið samstarf á milli þeirra ríkja sem mynda sambandið mikilvægt eða mjög mikilvægt.