Færeyingar fallast ekki á tillögu ESB

Frá Færeyjum.
Frá Færeyjum. mbl.is

„Við viljum ekki makrílstríð en við viljum heldur ekki samkomulag sama hvað það kostar. Ef við vinnum saman er samkomulag mögulegt,“ segir Maria Damanaki, sjávarútvegsstjóri Evrópusambandsins, í fréttatilkynningu frá framkvæmdastjórn sambandsins vegna fundar sjávarútvegsráðherra sambandsins í Lúxemburg í dag þar sem meðal annars var rætt um makríldeiluna.

Haft er eftir Damanaki á færeyska fréttavefnum Portal.fo að hún sé bjartsýn á að samkomulag náist bráðlega á milli strandríkjanna við Norðaustur-Atlantshafið um makrílveiðar á næsta ári. Það hafi hún sagt eftir fundinn í ráðherraráðinu í dag. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins myndi hins vegar standa vörð um hagsmuni sambandsins í málinu.

Ennfremur er haft eftir Jacob Vestergaard, sjávarútvegsráðherra Færeyja, að Færeyingar ætli ekki að sætta sig við 12% hlutdeild í makrílkvótanum líkt og framkvæmdastjórnin hefur gert að tillögu sinni. Hugmynd hennar er að Íslendingum verði boðin 11,9% en til þessa hafa íslensk stjórnvöld gert kröfu um 16-17%.

Vestergaard segir að Færeyingar vilji sem fyrr 15% en vilji Evrópusambandið ekki fallast á gagnkvæmar veiðar í lögsögum strandríkjanna eins og gjarnan er samið um í samningum um deilistofna ætli þeir að gera kröfu um 23%. Fundað verður um makríldeiluna í London 23.-24. október næstkomandi.

Jacob Vestergaard, sjávarútvegsráðherra Færeyja.
Jacob Vestergaard, sjávarútvegsráðherra Færeyja.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert