Nú þegar liggur fyrir að engan fjárveitingar verða til leigugreiðslna vegna minjasafns í Perlunni hefur borgarstjóri falið Menningar og ferðamálasviðið borgarinnar ásamt skrifstofu eigna og atvinnuþróunar að vinna tillögur um hvernig best verði að bregðast við. Þetta kemur fram í svari borgarstjóra við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
Á fundi borgarráðs þann 26. september síðastliðinn var lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
„Reykjavíkurborg keypti Perluna af Orkuveitunni í marsmánuði á þessu ári fyrir 950 milljónir króna. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins greiddu atkvæði gegn kaupunum. Viljayfirlýsing ríki og borgar um leigu húsnæðisins undir minjasafn var gerð samhliða. Reykjavíkurborg skuldbatt sig gangvart ríkinu til þess að breyta húsnæðinu og var áætlaður kostnaður vegna þess 100 milljónir. Leigusamningurinn er háður samþykki Alþingis en nú er ljóst að mikil óvissa ríkir um það hvort Alþingi samþykki framlög vegna hans og annan kostnað sem fylgir uppsetningu og rekstri náttúruminjasafns. Hefur borgarstjóri stöðvað undirbúning og framkvæmdir við húsið sem miði að því að þar verði minjasafn til húsa? Hefur borgarstjóri leitað upplýsinga hjá ríkisstjórn um vilja hennar í þessum efnum?“
Í svari við fyrirspurninni segir Jón Gnarr, borgarstjóri Reykjavíkur, að strax og fréttir hafi borist að því að hugsanlega yrði leigusamningur um Perluna ekki staðfestur af Alþingi hafi hann fundað með menntamálaráðherra vegna málsins. Jafnframt funduðu fulltrúar skrifstofu eigna og atvinnuþróunar með fulltrúum fjármálaráðuneytisins. Í framhaldi af þeim fundum var hægt á undirbúningshönnun en engar framkvæmdir eru enn hafnar. Nú liggur fyrir að engar fjárveitingar til leigugreiðslna eru í framlögðu frumvarpi. Hefur borgarstjóri falið Menningar- og ferðamálasviði ásamt skrifstofu eigna og atvinnuþróunar að vinna tillögur um hvernig best verði brugðist við þeirri stöðu sem upp er komin.