Grímuklæddir menn hafa herjað á vitni í máli ákæruvaldsins gegn Stefáni Loga Sívarssyni, Stefáni Blackburn og fleirum. Heimildir mbl.is herma að árásarmennirnir tengist Stefáni Loga mjög náið og að vitni hafi verið beitt grófu ofbeldi.
„Ég er saklaus,“ sagði Stefán Logi Sívarsson í Héraðsdómi Reykjavíkur þegar þingfest var ákæra á hendur honum fyrir stórfelldar líkamsárásir á dögunum. Fjórir menn til viðbótar eru ákærðir og neituðu þeir einnig allir sök.
Ein árásin fór meðal annars fram í íbúð á Stokkseyri. Og er það eigandi þeirrar íbúðar sem fór illa úr því í samskiptum við grímuklæddu mennina. Herma heimildir mbl.is að eigandi íbúðarinnar hafi verið beittur grófu ofbeldi og meðal annars hafi hann verið fingurbrotinn.
Lögregla keppist við að reyna finna út hverjir ofbeldismennirnir eru og taka þá úr umferð. Er um að ræða umfangsmikla aðgerð þar sem lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu og lögreglustjórinn á Selfossi hafa tekið höndum saman.