Þingmenn stjórnarandstöðunnar kvörtuðu ítrekað yfir fjarveru Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, forsætisráðherra, á þingfundum undanfarna daga og þar með talið í dag. Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, hóf umræðuna og sagði erfitt fyrir Alþingi að rækja það hlutverk sitt að veita framkvæmdavaldinu aðhald þegar verkstjóri þess léti ekki sjá sig dögum saman í þingsal.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, var á meðal þeirra sem tók undir með Helga sem og Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, sem lýsti þeirri skoðun sinni að ráðherrar núverandi ríkisstjórnar hefðu til þessa staðið sig verr við að mæta í þingsal en ráðherrar síðustu ríkisstjórnar.
Bæði Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, og Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, brugðust við gagnrýninni og sögðu að stjórnarandstaðan þyrfti ekki að hafa áhyggjur af verkstjórn í ríkisstjórninni. Hún væri í góðum málum og ráðherrar hennar þyrftu ekki á daglegri verkstjórn að halda í störfum sínum
Kristján L. Möller, forseti Alþingis, upplýsti hins vegar að Sigmundur Davíð væri staddur erlendis. Ekki kom hins vegar fram í hvaða erindagjörðum.