Haldinn verður íbúafundur Bryggjuhverfisins við Grafarvog í þjónustumiðstöðinni Miðgarði klukkan 17:00 í dag þar sem Dagur B. Eggertsson, formaður Borgarráðs, mun mæta ásamt sérfræðingi frá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar og kynna nýtt hverfisskipulag borgarinnar og með hvaða hætti það snertir íbúa Bryggjuhverfisins.
Íbúar Bryggjuhverfisins hafa lengi kvartað yfir starfsemi Björgunar sem fer fram við hlið hverfisins og er gert ráð fyrir að málið verði tekið upp á fundinum. Vilja íbúarnir starfsemina í burtu meðal annars vegna mengunar, sandfoks og að starfsemin hafi komið í veg fyrir uppbyggingu þjónustu í hverfinu. Undirskriftasöfnun hefur staðið yfir í Bryggjuhverfinu að undanförnu til stuðnings þeirri kröfu að starfsemi fyrirtækisins verði flutt á brott.
Þess má geta að meirihluti skipulagsráðs Reykjavíkurborgar samþykkti í byrjun þessa árs umsögn skipulags- og byggingarsviðs um landnotkun og skipulag í Ártúnshöfða þar sem gerð var tillaga um að starfsemi Björgunar yrði flutt tímabundið á þróunarland Faxaflóahafna í Sundahöfn. Skiptar skoðanir voru þó um nýja staðsetningu og gagnrýndu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins tillöguna og bókuðu að margsinnis hafi komið fram að framtíðarstaðsetning Björgunar ætti að vera á Álfsnesi.