Íslensk stjórnvöld máttu vísa norskum félaga í Vítisenglum úr landi samkvæmt nýjum dómi Hæstaréttar. Koma hans hingað var talin fela í sér „raunverulega, yfirvofandi og alvarlega ógn“ við grundvallarhagsmuni íslensks samfélags.
Með þessu staðfesti Hæstiréttur dóm Héraðsdóms Reykjavíkur.
Allur gjafsóknarkostnaður Vítisengilsins, þ.m.t. þóknun til lögmanns hans, greiðist úr ríkissjóði, 1,5 milljónir króna.
Vítisengillinn, Jan Anfinn Wahl, norskur ríkisborgari og meðlimur í Vítisenglum, kom til landsins 5. febrúar 2010 og hugðist dvelja hér í þrjá daga. Hann var stöðvaður af tollvörðum við komuna til landsins, handtekinn af lögreglu og síðan vísað úr landi.
Samkvæmt hættumati ríkislögreglustjóra voru taldar allar líkur á að koma Wahl hingað stæði í tengslum við fyrirhugaða inngöngu MC Iceland, áður Fáfnis, í vélhjólasamtökin Vítisengla eða Hells Angels sem hafa verið skilgreind sem skipulögð glæpasamtök.
Í dómi Hæstaréttar er m.a. bent á að í ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins kæmi fram að aðild einstaklings að vélhjólasamtökum sem hefðu tengsl við skipulagða glæpastarfsemi gæti að öðrum skilyrðum fullnægðum talist háttsemi sem fæli í sér raunverulega, yfirvofandi og nægilega alvarlega ógn við einhverja af grundvallarreglur samfélagsins.
Niðurstaða EFTA-dómstólsins hafi verið að synjun um landgöngu með skírskotun til allsherjarreglu og almannaöryggis verði byggð á hættumati einu og sér ef tilteknum skilyrðum er fullnægt. „Í fyrsta lagi þurfi í hættumati að koma fram hvert sé hlutverk viðkomandi einstaklings í þeim samtökum sem hann eigi aðild að. Í öðru lagi að ályktað sé í hættumatinu að samtökin hafi tengsl við skipulagða glæpastarfsemi. Í þriðja lagi að í hættumatinu sé sýnt fram á að þar sem slík samtök hafi skotið rótum hafi aukin og skipulögð glæpastarfsemi fylgt í kjölfarið. Í fjórða lagi verði hættumatið einungis reist á framferði þess einstaklings sem í hlut eigi og háttsemi hans að fela í sér raunverulega, yfirvofandi og nægilega alvarlega ógnun við einhverja af grundvallarreglum samfélagsins,“ segir í dómi Hæstaréttar.
Hæstiréttur segir að að áfrýjandi hafi með þátttöku sinni í samtökum norskra Vítisengla og fyrirhugaðri heimsókn sinni til Íslands samsamað sig meginmarkmiðum samtakanna og fyrirætlunum þeirra.
Þannig hafi hann haft í frammi persónubundna háttsemi sem fól í sér eða var líkleg til að fela í sér „raunverulega, yfirvofandi og alvarlega ógn við þá grundvallarhagsmuni íslensks samfélags að haldið sé uppi allsherjarreglu og almannaöryggi verndað,“ eins og segir í dómnum.
Öllum málsástæðum Wahl var hafnað og íslenska ríkið sýknað. Málskostnaður fyrir Hæstarétti féll niður og hvor aðili ber sinn kostnað af rekstri málsins fyrir Hæstarétti.
Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Jan AnfinnWahl, vegna öflunar ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans 1.500.000 krónur.
Málið dæmdu Þorgeir Örlygsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari. Oddgeir Einarsson hrl. flutti málið fyrir hönd Vítisengilsins en Óskar Thorarensen hrl. var til varnar fyrir íslenska ríkið.