„Varðandi skuldamálin leiðir af þessu svari mínu að stjórnvöld eru ekki að fara í neina samninga við kröfuhafa um skuldamál heimilanna. Það hefur hins vegar ekkert breyst að skuldamál heimilanna eru í sérstakri nefnd sem ákveðin var á sumarþingi. Þaðan munu berast tillögur, vænti ég, annars vegar í nóvember og hins vegar í desember eftir því hvort við horfum á skuldaleiðréttinganefndina eða verðtryggingarnefndina. Það er mitt álit að síðan þurfi að taka þær tillögur til skoðunar og eftir atvikum til meðferðar hér í þinginu.“
Þetta sagði Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, á Alþingi í morgun í svari við fyrirspurn frá Helga Hjörvar, þingmanni Samfylkingarinnar, hvort rétt hefði verið haft eftir honum af fréttaveitunni Bloomberg fyrr í vikunni að tillögur varðandi skuldavanda heimilanna lægju ekki fyrir í nóvember eins og áður hefði verið boðað heldur um áramót og að ekki yrði farið í aðgerðir í þeim efnum fyrr en á næsta ári. Helgi spurði ennfremur hvort sett yrðu skilyrði vegna viðræðna við erlenda kröfuhafa um að hægt yrði að ráðast í slíkar aðgerðir.
„Þegar á það er horft er ég ekkert sérstaklega vongóður um að við verðum búin að fá hugmyndir, vinna úr þeim, tefla fram þingmálum og klára þau í gegnum þrjár umræður fyrir jól. Ég skal bara viðurkenna það, ég er ekkert sérstaklega vongóður um það. En ekkert hefur breyst varðandi það að það er ætlun stjórnarflokkanna að vinna í þeim vanda sem okkur hefur lengi birst í slæmri stöðu heimilanna, í skulda- og greiðsluvanda heimilanna,“ sagði Bjarni ennfremur.
Hægt að afnema höftin innan árs
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, spurði Bjarna ennfremur út í þau ummæli hans í samtali við Bloomberg að hugsanlega yrði hægt að afnema gjaldeyrishöftin innan sex mánaða. Bað hún ráðherrann um að upplýsa þingið um það hvar þau mál voru stödd og hvort þverpólitísk nefnd sem starfaði á síðasta kjörtímabili um afnám haftanna myndi starfa áfram.
„Mín skoðun er sú að í sjálfu sér sé ekkert tæknilegt eða efnislegt í þessu máli sem geri að verkum, ef menn horfa á hlutina sömu augum, að það ætti að taka mikið lengri tíma en sex mánuði, níu mánuði, að minnsta kosti innan árs, að vinna úr helstu viðfangsefnunum. Hins vegar ef væntingar þeirra sem koma að málinu eru mjög ólíkar, sýn þeirra á það hvað er raunhæft er allt önnur, er þetta miklu flóknara viðfangsefni,“ sagði Bjarni.