Steingrímur gerir upp hitamálin

Kápa bókarinnar Steingrímur J. - Frá hruni og heim.
Kápa bókarinnar Steingrímur J. - Frá hruni og heim.

Steingrímur J. Sigfússon, fyrrverandi fjármálaráðherra, formaður Vinstri grænna og núverandi þingmaður VG, ræðir dramatísk átök sem fóru fram á bak við tjöldin í íslenskum stjórnmálum á síðasta kjörtímabili í kjölfar hrunsins í nýrri bók sem kemur út um næstu mánaðamót.

Bókin heitir Steingrímur J. - Frá hruni og heim en þar ræðir blaðamaðurinn Björn Þór Sigbjörnsson við Steingrím. 

Fram kemur í tilkynningu frá bókaforlaginu Veröld, sem gefur bókina út, að Steingrímur svipti hulunni af átökum sem fóru fram á bak við tjöldin, jafnt við samherja og andstæðinga. Bókin er sögð veita lesendum innsýn í heim íslenskra stjórnmála. 

„Hann ræðir meðal annars um tildrög þess að stjórn Samfylkingarinnar og VG tók við í febrúar 2009, segir frá erfiðri – og á köflum sársaukafullri – uppbyggingarvinnu, fjallar um þungbærar deilur við samherja og gerir upp hin miklu hitamál eftirhrunsáranna. Og hlífir hvorki sjálfum sér né öðrum,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert