Með því að samþykkja að Ísland fái í sinn hlut 12-14% makrílkvótans á samningafundi í Lundúnum í næstu viku væru Íslendingar að skríða fyrir ESB, að mati Jóns Bjarnasonar, fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem telur slíkt mundu vera glapræði.
„Fréttir um að við séum að fara að fallast á 12-14% hlutdeild af makrílkvótanum eru alveg út í hött og ótrúlegt ef íslensk stjórnvöld eru að skríða svo fyrir Evrópusambandinu í þessum efnum, þótt sjálfsögðu þurfi að semja. Þá þurfa hins vegar að vera viðunandi samningar fyrir Íslendinga. Það eru gríðarlega miklir hagsmunir í húfi að Íslendingar standi á rétti sínum,“ segir Jón og vísar til viðmiða um samningsmarkmið sem sett voru í ráðherratíð hans. Þau hafi verið í samræmi við hið mikla magn makríls sem verið hafi í íslenskri lögsögu hin síðari ár.
„Undanfarin ár hefur verið talið eðlilegt að hlutur okkar væri 16-17% af heildarveiðinni. Við eigum ekki að gefa mikið eftir frá því. Makríllinn er stofn í örum vexti. Hann er að færa sig inn á svæðið í kringum Ísland. Við eigum að standa þétt með Færeyingum í kröfunni um okkar hlutdeild.“