„Ég er ánægðastur að sjá þessar efnahagslegu forsendur eða umgjörð kjarasamninga í fyrsta skipti. Þetta er í fyrsta skipti sem sem við göngum til kjarasamninga með slíka skýrslu fyrir framan okkur og hún dregur mjög skýrt upp þau viðfangsefni sem framundan eru í lotunni og hvernig við getum mögulega brotist út úr þessum vítahring sem við höfum verið í í víxlverkun launa og verðlags. Þetta verður mjög mikilvægt tæki í þeirri vinnu.“
Þetta sagði Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, á blaðamannafundi í dag í húsakynnum embættis Ríkissáttasemjara þar sem kynnt var ný vinnumarkaðsskýrsla sem unnin hefur verið á vegum aðila vinnumarkaðarins og þar með talið með aðkomu ríkis og sveitarfélaga. Um er að ræða skýrslu um launaþróun og efnahagsþróun einkum hér á landi en einnig erlendis sem unnin er að norrænni fyrirmynd og ætlað er að verða innlegg í viðræður um kjarasamninga sem framundan er.
Ekki síst prófraun á stjórnmálamennina
Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands, sagði að skýrslan fæli í raun fyrst og fremst í sér ákveðinn staðreyndabanka og drægi fram upplýsingar og aðstæður í umhverfinu. Mikilvægt væri að allir aðilar vinnumarkaðarins hefðu komið að gerð hennar. Óþarfi væri að deila um staðreyndir. Miklu skipti í því sambandi að Hagstofan byggi nú yfir betri tækjum en áður til þess að bera sama laun á almennum og opinberum markaði. Það hafi í raun ekki verið hægt áður.
Prófraunin framundan á þessi bættu vinnubrögð væri hvernig þessar upplýsingar yrðu nýttar. Það væri ekki síst prófraun fyrir stjórnmálamennina. Hvernig þeir ætluðu að láta þær efnahagsaðstæður sem lýst væri í skýrslunni hafa áhrif á þróun mála og þá ekki síst ríkisfjármála. „Það er partur af norræna líkaninu auðvitað sáttin um velferðina, sáttin um jöfnuðinn og það að þetta hafi áhrif á aðstæður. Þannig að það er ekki bara nóg fyrir okkur hérna að taka upp norræn vinnubrögð ef að stjórnvöld og Seðlabankinn gera það ekki,“ sagði Gylfi. Meginforsenda kjarasamninga væru ákvarðanir stjórnmálamanna. Þar á meðal bæði efnahagsstefnan og atvinnustefnan.