Transfólki veitt refsivernd með lögum

mbl.is/Ómar

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra hefur lagt fram frumvarp til laga þar sem einstaklingum með kynáttunarvanda (transfólk) er veitt refsivernd til samræmis við aðra hópa. Lagt er til að það verði refsivert að mismuna einstaklingum á grundvelli kynvitundar.

Um er að ræða breytingu á almennum hegningarlögum og snýst um mismunun á grundvelli kynvitundar og viðbótarbókun við samning Evrópuráðsins um tölvubrot.

Fram kemur, að markmiðið sé annars vegar að veita transfólki refsivernd til samræmis við aðra hópa sem eru taldir þurfa á sérstakri vernd að halda og hins vegar að koma til móts við alþjóðlegar skuldbindingar á grundvelli viðbótarbókunar við samning Evrópuráðsins um tölvubrot.

„Í fyrsta lagi er lagt til að refsivert verði skv. 1. mgr. 180. gr. að mismuna einstaklingum á grundvelli kynvitundar í atvinnurekstri og þjónustustarfsemi auk þess sem kynvitund er bætt við upptalningu í 233. gr. a sem fjallar um ólögmæta tjáningu í garð þeirra hópa sem þar eru upp taldir. Í öðru lagi er lagt til að gildissvið 233. gr. a verði rýmkað þannig að til refsiábyrgðar stofnist breiði menn með nánar tilteknum hætti út ummæli eða tjái sig á annan hátt, svo sem með myndum eða táknum, um mann eða hóp manna vegna þjóðernis þeirra, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar,“ segir í frumvarpinu.

Lagt er til að í stað orðanna „trúarbragða eða kynhneigðar“ í 1. mgr. 180. gr. laganna komi: trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar.

Þá er lagt til að 233. gr. laganna orðist svo: „Hver sem opinberlega hæðist að, rógber, smánar eða ógnar manni eða hópi manna með ummælum eða annars konar tjáningu, svo sem með myndum eða táknum, vegna þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar, eða breiðir slíkt út, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka