Viðvarandi verðbólga og hærri vextir

mbl.is/Helgi Bjarnason

Verðbólga verður yfir verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands á næstu árum miðað við spár sex greiningaraðila sem bornar eru saman í nýrri vinnumarkaðsskýrslu aðila vinnumarkaðarins sem kynnt var á blaðamannafundi í dag en í skýrslunni eru teknar saman hagstærðir sem þeir hafa komið sér saman um í aðdraganda viðræðna um kjarasamninga sem framundan eru. Greiningaraðilarnir eru Seðlabanki Íslands, Hagstofan, Alþýðusamband Íslands, Íslandsbanki, Landsbankinn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn.

Þannig kemur fram í skýrslunni að samkvæmt spám þeirra megi gera ráð fyrir að verðbólgan verði á bilinu 3,5-4,5% á þessu ári, 3-4% á næsta ári og 2,5-3,5% árið 2015 en markmið Seðlabankans er að verðbólgan sé undir 2,5%. Rifjað er upp að bankinn hafi ítrekað lýst því yfir að hann muni breyta stýrivaxtahækkunum til þess að ná verðbólgumarkmiði sínu og því megi búast við hækkandi vöxtum á næstu misserum. Þá er því spáð að einkaneysla aukist um 1,5-2% á þessu ári, 1,5-3% á næsta ári og 2-3% árið 2015.

„Sviðsmynd um áframhaldandi verðbólgu og hækkanir vaxta, sem eru margfalt hærri en í samanburðarlöndum, er fjarri því að vera eftirsóknarverð framtíðarsýn fyrir heimili og fyrirtæki landsins,“ segir í skýrslunni. Fjallað er að sama skapi um þróun verðbólgu á undanförnum árum og samspil hennar við kaupmátt. Frá því í nóvember 2006 og fram í maí á þessu ári hafi vísitala neysluverðs hækkað um 54,6% eða um 6,9% að jafnaði.

Launavísitalan hækkað um 52% á tímabilinu

Fram kemur að skipta megi tímabilinu í þrennt. Fyrir það fyrsta aðdraganda hrunsins 2006-2007 þegar húsnæðisverð ýtti einkum undir verðbólgu, hrunið 2008-2010 þegar gengi krónunnar féll mikið og verðhækkanir á innfluttum vörum hafi verið leiðandi í verðbólgunni og eftir hrun 2011-2013 en á þeim tíma hafi verð á innlendum vörum utan búvörur og grænmeti hækkað mun meira en innfluttar vörur fyrir utan áfengi og tóbak auk þess sem verð á húsnæði hafi farið að hækka á ný.

„Gengishrun krónunnar á árinu 2008 og sú verðbólguhrina sem af henni hlaust, hafði óhjákvæmilega í för með sér að kaupmáttur launa minnkaði verulega næstu tvö árin. Frá nóvember 2007 til 2009 nam lækkunin um 12%. Lægstur var kaupmátturinn í febrúar 2010 og var hann þá svipaður og á árinu 2002. Kaupmáttur launa hefur aukist frá 2009 um 8% á þennan mælikvarða.,“ segir ennfremur í skýrslunni en samkvæmt spám greiningaraðilanna má reikna með að kaupmáttur vaxi um 1-2% á þessu ári, 1,5-3% á næsta ári og 1,5-2,5% árið 2015.

Þá segir að á umræddu tímabili hafi launavísitalan hækkað um tæp 52% eða að meðaltali um 6,7% á ári sem aftur geri 0,5% á mánuði. „Frá nóvember 2010 til jafnlengdar 2011 hækkaði launavísitalan um 9%. Á því tímabili var ein almenn samningsbundin hlutfallshækkun launa, þ.e. 4,25% hækkun í júní 2011. Almenn lágmarks hlutfallshækkun kjarasamninga skýrir þannig aðeins tæpan helming vísitöluhækkunarinnar.“ Að mati greiningaraðilanna hækkar launavísitalan á þessu ári um 4,5-6% á þessu ári, 5,6% á næsta ári og 4,5-6% árið 2015.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka