„Ég vil nú fyrst og fremst óska henni til hamingju og ég vona að henni gangi vel. Alla vega ekki síður en mér,“ segir Guðmundur Magnússon, fráfarandi formaður Öryrkjabandalags Íslands, en hann beið lægri hlut fyrir Ellen Calmon í formannskosningum á aðalfundi félagsins í dag.
„Það er bara svona með kosningar, maður getur alltaf átt á hættu að tapa,“ segir Guðmundur en kosningarnar voru mjög jafnar. „Ég held að áherslumunurinn á okkur hafi meðal annars verið sá að ég held að henni finnist ég fullharður. Henni finnst mig kannski vanta smálipurð í samningagerð og svoleiðis. Einstrengingslegur, jafnvel. En síðustu fimm ár hafa verið rosalega erfið. Það hefur ekki gengið mikið gagnvart stjórnvöldum, þau hafa ekki verið okkur mjög hliðholl.“
<span>Guðmundur segist ekki hafa tekið neina ákvörðun um hvað taki nú við. „Ég er nú bara að ná áttum aðeins og slappa af. Ég á auðvitað eftir að ganga frá skrifstofunni og svoleiðis, svo er aldrei að vita hvað tekur við.“</span> <span><br/></span>Sjá einnig:
<a href="/frettir/innlent/2013/10/19/ellen_kosin_formadur_b/" target="_blank">Ellen kosin formaður ÖBÍ</a>