Ellen kosin formaður ÖBÍ

Ellen Calmon.
Ellen Calmon. mbl.is/Eyþór Árnason

Ellen Calmon var í dag kosin formaður Öryrkjabandalags Íslands á aðalfundi félagsins sem fram fór á Grand hóteli í dag. Ellen hlaut 50 atkvæði en Guðmundur Magnússon, sitjandi formaður, 46 atkvæði. Tveir seðlar voru auðir.

Um 120 manns mættu á aðalfundinn að sögn Lilju Þorgeirsdóttur, framkvæmdastjóra ÖBÍ. Báðir frambjóðendur héldu ræður á fundinum og þá voru ályktanir samþykktar.

Ellen er framkvæmdastjóri ADHD-samtakanna.

Hún segir áherslubreytinga vera að vænta undir sinni stjórn. „Lögð verður áhersla á nútímalegri baráttuaðferðir, við ætlum að reyna að vera meira í samræðum við stjórnvöld. Svo viljum við vekja almenning til vitundar á verkefnum aðildarfélaganna svo við fáum almenning með okkur í það að þrýsta á stjórnvöld að bæta hag öryrkja.“

Ellen segir að sitt fyrsta verk verði að kalla til framkvæmdastjóra og formenn aðildarfélaga ÖBÍ og heyra hvernig hjartað slær. „Það eru svo stóru málin sem skipta máli, flutningur á málefnum fatlaðra til sveitarfélaganna, samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra, hagsmunabarátta öryrkja og síðast en ekki síst heilbrigðiskerfið og málefni sem snúa að því. Við höfum áhyggjur af legugjaldinu og kostnaði öryrkja almennt.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert