Fleiri þúsundir eru nú notendur að bandaríska áskriftarvefnum Netflix hér á landi, fólk sem hefur vanist því að nota netið til að nálgast afþreyingarefni kann vel að meta frelsið sem felst í því að móta eigin sjónvarpsdagskrá. Þetta nýja neyslumynstur mun að öllum líkindum hafa mikil áhrif á sjónvarpsstöðvar.
Þrátt fyrir að hægt sé að kaupa afþreyingarefni í gegn um VOD (Video on demand) þjónustur símafyrirtækjanna, sjónvarpsstöðin Skjáreinn bjóði upp á skjáfrelsi og að á vefnum filma.is sé töluvert magn af íslensku og erlendu efni í boði og að strangt til tekið sé þjónustan ekki aðgengileg hér á landi hefur Netflix æði gripið um sig hér á landi þar sem áskriftin kostar í kring um þúsund krónur á mánuði.
Nýjasta þróunin í þessum efnum er flix.is þar sem Íslendingum er boðið að kaupa áskrift að erlendri IP-tölu sem er það sem þarf til að tengjast þjónustunni.
Ný neyslumynstur
Neyslumynstur mótuð af internetinu hafa bylt afþreyingariðnaði á undanförnum árum. Fyrst var það tónlistariðnaðurinn sem tók kollsteypu, kvikmyndaiðnaðurinn hefur þurft að laga sig að nýjum aðstæðum og nú er komið að sjónvarpsstöðvum.
Netflix hefur farið þá leið að framleiða eigið efni og hefur gert heilu þáttaraðirnar aðgengilegar sama kvöldið. Með því getur neytandinn fylgst með framvindunni á eigin hraða en það er neyslumynstur sem er mótað af niðurhali á sjónvarpsefni á síðustu árum.
Fólk virðist þó vilja borga fyrir efnið ef því er boðið upp á að horfa á með þessum hætti en fjórða þáttaröð grínþáttarins Arrested Development var gerð aðgengileg hjá Netflix með þessum hætti í sumar og niðurstaðan var sú að ólöglegt niðurhal á þáttunum var mun minna en af öðrum þáttum sem njóta sambærilegra vinsælda.
Hvaða áhrif þróunin kemur til með að hafa hér á landi er ekki gott að segja til um. Hjá RÚV og Stöð 2 hefur því verið lýst yfir að svarið liggi m.a. í íslenskri dagskrárgerð og útsendingum frá atburðum sem ekki séu aðgengilegir á netinu auk þess að gera þáttaraðir aðgengilegar í heild sinni.
En þrátt fyrir að ágæt lausn sé komin í baráttunni gegn ólöglegu niðurhali í Bandaríkjunum er þetta flóknara hér á landi því íslenskur markaður er svo lítill að óvíst er um hvort hann gæti haldið uppi sambærilegum áskriftarvef og dagskrárgerð fyrir slíkan markað. Erlingur Þorsteinsson, framkvæmdastjóri filma.is, segir að hugmyndin hafi verið að setja upp sambærilega þjónustu og Netflix en að ómögulegt hafi reynst að ná saman við fyrirtækin í Hollywood sem bjóði Íslendingum t.a.m. sömu verð og Norðmönnum og Svíum þrátt fyrir að þar sé um margfalt stærri markaði að ræða
Mbl.is ræddi við þá Árna Matthíasson blaðamann, Sverri Björgvinsson ritstjóra einstein.is, og Ragnar Hansson kvikmyndagerðamann um Netflix.