Lítil tveggja sæta flugvél nauðlenti á veginum á milli Gullfoss og Geysis skömmu fyrir hádegi í dag. Að sögn blaðmanns mbl.is sem er á staðnum voru tveir í vélinni. Þá sakaði ekki.
Svo vildi til að engin umferð var á veginum er vélin þurfti að lenda. Að minnsta kosti ein kona var þó stödd skammt frá. Þá sá blaðamaður mbl.is, Benedikt Bóas Hinriksson, þegar vélin lenti á veginum.
„Ég var við Geysi og á leið á Gullfoss. Þá sé ég þessa vél fljúga mjög lágt og svo loks lenda á veginum um kílómetra fyrir framan okkur,“ segir Benedikt. Vegfarendur sem að komu fóru strax í það að koma vélinni út í kant og setja upp viðvaranir, þríhyrninga sem finna má í fólksbílum. „Mér fannst þetta glæsileg lending,“ segir Benedikt og að augljóslega hafi þetta farið mjög vel miðað við aðstæður. Hann segir flugmennina hafa varpað öndinni léttar er þeir komu út úr vélinni.
Enginn slasaðist og er lögreglan á Selfossi mætt á staðinn. Vinnur hún að rannsóknum að tildrögum atvikið ásamt rannsóknarnefnd samgönguslysa.
Vélin lokar annarri akreininni, þeirri frá Gullfossi. Lögreglan bendir vegfarendum á að gæta varúðar, en blindhæð er öðrum megin þegar komið er að staðnum. Ekki er ljóst hve lengi vélin verður þarna.