Stjórn BSRB lýsir vonbrigðum með fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar. „Fyrstu verk nýrrar stjórnar voru að hafna milljarða tekjum frá útgerðinni og ferðaþjónustunni,“ segir í ályktun stjórnarinnar.
„Þess í stað á að rétta hallann með niðurskurði á opinberri þjónustu, afnámi vaxta á láni Seðlabankans og fyrirframgreiðslum úr þrotabúum föllnu bankanna.“
Þá segir í ályktuninni að ríkisstjórnin hafi einnig valið að framlengja ekki skatta á þá efnamestu, tekjustofna sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur í nýlegri skýrslu sinni sagt að séu nauðsynlegir til að rétta af halla á ríkisrekstri og stuðla að frekari jöfnuði fólks. Þá mun boðuð tekjuskattslækkun á 2. skattþrepi aðeins koma þeim tekjuhærri til góða, segir í ályktuninni.
„Með því að hverfa frá lækkun skatta á auðmenn og útgerðir væri hægt að rétta heilbrigðiskerfið við og takast á við einhver þeirra fjölmörgu verkefni sem þegar þarfnast úrlausna. Slíkar aðgerðir gætu dregið úr þeim aðhaldskröfum sem settar eru fram í nýju fjárlagafrumvarpi og um leið tryggt heilbrigðis- og almannaþjónustunni það fjármagn sem nauðsynlegt er til að velferð landsmanna geti aftur orðið með því besta sem gerist,“ segir í ályktun stjórnar BSRB.