„Löggan tók mig fyrst. Kannski er það heiður,“ skrifar Eiður Svanberg Guðnason, fyrrverandi ráðherra, um mótmælin vegna lagningar nýs Álftanesvegar í morgun. „Lengst af voru lögreglumennirnir fleiri en við mótmælendur. Við búum greinilega ekki í réttaríki heldur lögregluríki.“
Eiður skrifar um málið á vefsvæði sitt. Hann lýsir atvikum á þennan hátt: „Tökum hann, tökum hann, sagði fílefldur lögregluþjónn um leið og hann og félagi hans hrintu mér yfir ímyndaða línu milli tveggja keilna í Gálgahrauni í morgun. Að þessu voru mörg vitni. Það var ekki búið að strengja nein bönd eða borða, aðeins. henda niður nokkrum röndóttum keilum. Það er álitamál hvort ég var 20 eða 30 sentimetra innan við ímyndaða línu sem enginn sá nema lögreglan. Keilurnar voru síðan færðar því í óðagotinu höfðu þær verið settar rangt niður. Þetta var langt frá öllum vinnuvélum. Meðan löggan var að hóta mér og hrinda gekk Ómar vinur minn Ragnarsson, sem staðið hafði við hliðina á mér óhindrað inn á svæðið, en ekki leið á löngu áður en lögreglan beitti hann ofbeldi og bar hann í burtu. Löggan tók mig fyrst. Kannski er það heiður.“
Hann segir að fjörutíu manna lögregluliði hafi verið sigað á almenna borgara við friðsöm mótmæli í morgunsólinni. „Hvað skyldi þetta annars hafa kostað íslenska skattborgara? Mikið, þegar upp er staðið.“
Hann sagði það hafa verið með ólíkindum að upplifa þetta og að það „ólánsfólk sem ber ábyrgð á þessu hrikalega skemmdarverki, þessu níðingsverki gegn náttúrunni og komandi kynslóðum, liggur mér við að segja, hefur hinsvegar með framgöngu sinni reist sér óbrotgjarnan minnisvarða sem standa mun þessu fólki til háðungar um aldur og ævi. Þetta er svartur dagur í sögu náttúruverndar á Íslandi og sögu íslensks réttarfars.“