Ekkert sem á að koma á óvart

Lögreglumenn og mótmælendur í Garðahrauni í morgun.
Lögreglumenn og mótmælendur í Garðahrauni í morgun. mbl.is/Júlíus

Vegagerðin segir að unnið verði að lagningu nýs Álftanesvegar í Garðahrauni næstu daga, en vinnan hófst í morgun eftir að fjölmennt lið lögreglumanna fjarlægði mótmælendur af vinnusvæðinu. Vegagerðin segir að niðurstaða í lögbannsmáli liggi í fyrsta lagi fyrir í apríl á næsta ári og lokaniðurstaða í dómsmálum liggi fyrir í fyrsta lagi síðla árs 2015. Hugsanlega ekki fyrr en á árinu 2016.

„Af hálfu Garðabæjar og Vegagerðarinnar hefur alltaf verið ljóst að ekki yrði hætt við lagningu nýs Álftanesvegar þótt lagningu hans um Garðahraun hafi verið mótmælt. Lengi hefur staðið til að fara í þessa framkvæmd og íbúar Álftaness og Garðabæjar sem daglega fara um gamla veginn hafa beðið eftir öruggari og betri vegi.

Því á það ekki að koma á óvart að framkvæmdum er framhaldið í hrauninu. Nýi vegurinn hefur verið á aðalskipulagi Garðabæjar um langt árabil og hefur heilt íbúðahverfi risið í ljósi þess að nýr vegur kæmi. Gamli vegurinn er með hærri slysatíðni en sambærilegir vegir að meðaltali enda eru einar tíu innákomur á þann veg á stuttum kafla. Ekki er mögulegt að breyta gamla veginum þannig að hann standist kröfur um veg af því tagi sem Álftanesvegurinn er, en hann mun nýtast sem innanbæjargata fyrir íbúana í hverfinu,“ segir á vef Vegagerðarinnar.

Umhverfismat og framkvæmdaleyfi úrskurðuð gild

Þar segir ennfremur, að farið hafi verið fram á lögbann á framkvæmdina sem sýslumaðurinn í Reykjavík hafi synjað. Framkvæmdin hafi verið kærð áður en hvort tveggja umhverfismat og framkvæmdaleyfi hafi verið úrskurðuð gild af þar til bærum stjórnvöldum.

Synjun lögbannsins var kærð af umhverfisverndarsamtökum og farið fram á að fengið yrði ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins á því hvort samtökin ættu aðild að málinu, en sýslumaður hafði synjað lögbanni á þeirri forsendu, að þau ættu ekki aðild.

Þá segir, að héraðsdómur hafi hafnað því að leita álits EFTA-dómstólsins á þeirri forsendu að það gengi gegn tilgangi lögbanns um nauðsyn á hraðri málsmeðferð. En reikna megi með að það taki EFTA-dómstólinn 6-9 mánuði að gefa álit og hugsanlega tólf mánuði.

Allar tafir fresta einungis lagningu nýs Álftanesvegar

„Á meðan þetta átti sér stað var gert hlé á vinnu við Álftanesveginn í Garðahrauni en unnið á öðrum stöðum í verkinu. Eigi að síður ákváðu mótmælendur að kæra niðurstöðu héraðsdóms um að fá ráðgefandi álit til Hæstaréttar þann 11. október sl. Ekki má vænta niðurstöðu Hæstaréttar í því máli fyrr en í byrjun desember nk. að áliti lögmanns Vegagerðarinnar.

Taki Hæstiréttur sömu afstöðu til ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins þá má vænta niðurstöðu í lögbannsmálinu í apríl 2014. Þannig að í fyrsta lagi þá er möguleiki á að niðurstaða lögbannsmáls liggi fyrir úr því að farin var sú leið að fara fram á ráðgefandi álit. Fari hinsvegar svo að Hæstiréttur fallist á að leitað verði ráðgefandi álits má reikna með að málið komi þá ekki til kasta héraðsdóms aftur fyrr á tímabilinu október til desember 2015,“ segir Vegagerðin.

„Í málinu um lögmæti umhverfismatsins og framkvæmdaleyfisins má ekki búast við niðurstöðu vegna þessara málstafa fyrr en á síðari hluta árs 2015 í fyrsta lagi og ekki fyrr en í lok árs 2015 eða í ársbyrjun 2016 verði leitað álits EFTA-dómstólsins.

Fari svo ólíklega að það mál tapist hefur ekki komið annað fram hjá Garðabæ en að farið yrði á ný í umhverfismat og ekki við öðru að búast en að niðurstaða þess yrði sú sama og fyrri mata á umhverfisáhrifum og yrði þá á ný gefið út framkvæmdaleyfi fyrir lagningu nýs Álftanesvegar. Þannig að allar tafir fresta einungis lagningu nýs Álftanesvegar en koma ekki í veg fyrir að hann verði lagður,“ segir Vegagerðin ennfremur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert