Útgerð á Breiðdalsvík hefur átt undir högg að sækja en nú sjá menn þar í bæ fram á bjartari tíma. Af þeim sökum er nú unnið að því að gera upp fiskverkun sem hætt var að nota.
„Kvótinn fór á 10. áratugnum og þá voru togararnir tveir sem voru hérna seldir í burtu,“ segir Elís Pétur Elísson vélstjóri í Morgunblaðinu í dag en blaðið heimsótti þorpið á hringferð sinni um landið í tilefni af 100 ára afmæli Morgunblaðsins í næsta mánuði.
„Trillubátaútgerðin jókst með strandveiðunum og það hefur verið byggðarkvóti hérna, þó lítill sé. En nú er kominn svokallaður byggðastofnapottur. Það er kvóti sem gæti orðið það mikill að það borgi sig að vinna hann í fiskverkuninni enda er vinnsluskylda á honum. Þess vegna byrjuðum við á þessu.“