Að minnsta kosti tíu menn hafa verið handteknir og færðir á lögreglustöð fyrir að reyna að hindra framkvæmdir við nýjan Álftanesveg í morgun. Mótmælendurnir fóru inn á vinnusvæðið í morgun og voru þá bornir út af því en þeir fóru þá aftur inn á það. Um 20-30 mótmælendur hafa verið á svæðinu.
Samkvæmt heimildum mbl.is hefur ekki komið til neinna átaka heldur er fyrst og fremst um táknræn mótmæli að ræða. Samskipti lögreglu og mótmælenda hafa verið friðsöm. Í kringum fjörutíu lögreglumenn úr mannfjöldastjórnunarsveit lögreglunnar eru á staðnum en lögreglan hefur meðal annars lokað Álftanesveginum fyrir almennri umferð.
„Þetta veldur okkur náttúrulega gríðarlegum vonbrigðum. Maður hefði haldið í siðuðu samfélagi væri hægt að bíða niðurstöðu dómstóla. Þessi framkvæmd hefur verið í undirbúningi í meira en áratug og engu skipt þótt þetta hefði beðið í einhverja mánuði í viðbót á meðan komist yrði að niðurstöðu í málinu. Maður hélt að réttarkerfið og siðuð samfélög að virka en það er greinilegt að bæjarstjórinn í Garðabæ og yfirstjórn Vegargerðarinnar eru ekki sammála því.“
Þetta segir Guðmundur Hörður Guðmundsson, formaður Landverndar, í samtali við mbl.is. Hann segir samskiptin við lögregluna hafa verið með ágætum.
„Þeir eru bara að reyna að gera þetta vel og fara vel með það fólk sem þeir neyðast til þess að fjarlægja af svæðinu. Það er væntanlega betra að vera vel mannaðir en of fáliðaðir. Þeir eru náttúrulega bara að sinna vinnunni sinni. Samskiptin hafa verið til fyrirmyndar. Þeir hafa útskýrt málin vel eru greinilega að reyna að vanda sig og komast hjá því að meiða nokkurn mann.“