Beikonbollur sem Sláturfélag Suðurlands framleiðir hafa verið innkallaðar úr verslunum. Bollurnar innihéldu hveiti en þess gleymdist að geta á umbúðunum. Það sama á við um Cordon Blue frá SS og hefur sú vara einnig verið innkölluð.
Matvælastofnun hefur fengið upplýsingar frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur um vanmerktar vörur á markaði m.t.t. ofnæmis-og óþolsvalds (hveiti). Vegna mistaka var nýr merkimiði settur á vörurnar án þess að geta þess að hveiti væri eitt af innihaldsefnunum. Vörurnar voru eingöngu seldar hjá Stórkaupum, Faxafeni 8, 108 Reykjavík.
Vörurnar hafa verið innkallaðar og merkingar lagaðar. Vörurnar eru hættulausar nema fyrir þá sem hafa ofnæmi- og óþol fyrir innihaldsefninu. Þeir neytendur sem gætu átt umræddar vörur og eru viðkvæmir fyrir hveiti geta skilað þeim til Stórkaupa.
Samkvæmt matvælalöggjöfinni eiga ofnæmis-og óþolsvaldar að vera skýrt merktir í merkingum matvæla. Meðfylgjandi eru myndir af vörunum.