„Þeir keyrðu bara hliðina úr húsinu og við það fór ofnakerfi hússins í sundur. Þannig að það flæddi vatn um allt, bæði í þessari verslun og þeirri næstu. Slökkviliðið var kallað út vegna þess. Síðan var töluverðu stolið en tjónið af skemmdunum er meira en þjófnaðinum. Það lenti það mikið af vörum í vatninu.“
Þetta segir Björgvin Þór Hólm, rekstrarstjóri verslunarinnar Tölvuvirkni við Holtasmára í Kópavogi, í samtali við mbl.is en brotist var inn í verslunina um fimm leytið í morgun og tölvum og öðrum búnaði stolið. Þjófarnir brutust inn með því að aka bifreið á verslunina og brjóta sér þannig leið inn í hana. Þeir gripu síðan þýfið og voru horfnir á braut innan fárra mínútna. Bifreiðin sem notuð var er væntanlega illa farin eftir ákeyrsluna en Birgir segir að ein rúðan úr henni hafi orðið eftir á staðnum. Talið er að um sé að ræða hvítan Cherokee-jeppa.
„Þeir nota bíl sem innbrotstæki í staðinn fyrir kúbein. Þetta er greinilega stolinn bíll því það fer enginn svona með bílinn sinn. Það á bara eftir að finna hann. Þeir gripu einhverjar fartölvur og skjái og hentu því inn í bílinn og keyrðu í burtu. Þeir hafa ekki verið inni nema í nokkrar mínútur og rifu meðal annars öryggismyndavélar úr sambandi,“ segir hann. Þeir hafi greinilega vitað hvað þeir voru að gera og verið búnir að kynna sér aðstæður.
Taldir hafa skilið eftir „lífsýni“ á staðnum
Ljóst er að tjónið hleypur á milljónum að sögn Birgis þó það liggi ekki nákvæmlega fyrir. Bæði tjón fyrir húseigandann og verslunina og aðra í húsinu sem urðu fyrir tjóni. Hann segir að það sé tryggingafélag bifreiðarinnar sem notuð var sem greiði fyrir tjónið. Fyrir vikið sé mikilvægt að finna hana.
„Ég lít annars svo á að þjófarnir séu í raun bara að vinna hjá þeim sem kaupa þýfið. Þannig að hinn raunverulegi þjófur er atvinnurekandinn og hann er sá sem borgar þeim launin. Sá sem borgar fyrir þýfið,“ segir hann ennfremur. Þeir sem kaupa þýfi séu þeir sem ætti fyrir vikið fyrst og fremst að sakfella.
Málið er í rannsókn lögreglu en Birgir segir að mannaskítur hafi fundist við húsið sem talið sé að þjófarnir hafi skilið eftir sig. „Það má því segja að þeir hafi skilið eftir lífsýni á staðnum.“