Nokkrir mótmælendanna sem handteknir voru við Gálgahraun í morgun eru nú komnir á vettvang á ný. Alls voru 22 mótmælendur handteknir og færðir á lögreglustöð í morgun fyrir að hafa reynt að hindra framkvæmdir við nýjan Álftanesveg.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu hefur öllum mótmælendunum nú verið sleppt og hafa nokkrir þeirra komið sér fyrir við vinnusvæðið við Gálgahraun á ný. Enginn þeirra hefur þó farið inn á vinnusvæðið. Að sögn lögreglu verða mótmælendurnir handteknir, fari þeir aftur inn á vinnusvæðið.
Mótmælendurnir fengu allir sektarboð á lögreglustöðinni í morgun. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu brutu þeir 19. grein lögreglulaga, en þar kemur fram að almenningi sé skylt að hlýða fyrirmælum sem lögreglan gefur, svo sem vegna umferðarstjórnar eða til þess að halda uppi lögum og reglu á almannafæri.
Að sögn lögreglu má gera ráð fyrir að sektin verði hærri, brjóti þeir af sér á ný.