Vel á annan tug mótmælenda úr röðum umhverfisverndarsinna hefur verið handtekinn við Gálgahraun í morgun fyrir að reyna að koma í veg fyrir að framkvæmdir geti hafist við nýjan Álftanesveg. Þar á meðal er sjónvarpsmaðurinn Ómar Ragnarsson.
Lögreglan hefur verið með fjölmennt lið á svæðinu í morgun og borið mótmælendur út af svæðinu. Þeir sem ekki hafa látið segjast við það og farið inn á svæðið á nýjan leik hafa verið handteknir fyrir brot á 19. grein lögreglulaga og færðir í lögreglubilfreiðar og á lögreglustöð. Samskipti mótmælenda og lögreglu hafa engu að síður verið með ágætum að sögn Guðmundar Harðar Guðmundssonar, formanns Landverndar.
Lögreglan hefur nú að mestu komið mótmælendum af svæðinu og framkvæmdir eru hafnar undir lögregluvernd.