Sakar Framsókn um eftirgjöf

Jón Bjarnason, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra.
Jón Bjarnason, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Sjávarútvegsráðherrann lætur nú ESB kúga sig til undirgefni í makríldeilunni. Samkvæmt fréttum ætlar hann að þiggja úr hnefa ESB aðeins tæp 12% hlutdeild í heildarveiði á makríl. En það er um 30% lægri hlutdeild en við nú þegar höfum.Jafngildir þetta því að verið sé að gefa frá sér um 50-60 þús. tonn af makríl til ESB og Norðmanna.“

Þetta segir Jón Bjarnason, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, á heimasíðu sinni í dag. Hann segir vaxandi vonbrigði vera með Framsóknarflokkinn „vegna fálmkenndra vinnubragða framsóknarmanna í mörgum meginmálum sem þeir hreyktu sér af og lofuðu í síðustu kosningabaráttu. En miklar væntingar eru bundnar við að þeir standi við stóru orðin.“ Svo virðist sem ríkisstjórnin sé að bogna vegna ólögætra hótana Evrópusambandsins um viðskiptaþvinganir.

„Mín skoðun er reyndar sú að ekki eigi að ganga til slíkra nauðasamninga eins og nú er talað um í makríl. Og alls ekki á að bogna fyrirríkjasambandi sem í krafti stærðar og óskammfeilni heldur uppi hótunum um beitingu valds einsog ESB hefur gert gangvart  Íslendingum og Færeyingum. Færeyingar hafa þó enn haldið haus í deilunum við ESB um fiskveiðimálin, enda mikið í húfi, yfir95% af útflutningstekjum þeirra,“ segir Jón ennfremur.

Eftirgjöf „slæm vísbending um framhaldið“

„Ég minnist þess fyrir um ári síðan þegar sá orðrómur gekk að þáverandi sjávarútvegsráðherra hafi boðið ESB að lækka hlutdeild Íslendinga niður í tæp 14% af heildarveiðimagni makríls. Þá höfðu framsóknarmenn á þingi stór orð um svik og undirlægjuhátt ríkisstjórnar Jóhönnu og Steingríms gagnvart ESB. Verið væri að bogna fyrir hótunum. Ég sem ráðherra taldi lágmarks hlutdeild okkar vera milli 16 og 17% af heildarveiði úr makrílstofninum,“ segir Jón.

Þar hafi hann tekið mið af útbreiðslu makríls í íslensku efnahagslögsögunni. Hann segir að makrílveiðar Íslendinga hafi líklega gefið samtals um 100 milljarða króna í útflutningstekjur á undanförnum 4-5 árum og það muni um minna. Hann beinir ennfremur orðum sínum að Gunnari Braga Sveinssyni, utanríkisráðherra, og þykir hægt ganga við að afturkalla umsóknina um inngöngu í Evrópusambandið. Framgangan í makríldeilunni sem liggi í loftinu sé slæm vísbending um framhaldið varðandi umsóknina.

Eftirgjöf Framsóknar í makrílnum, sem liggur í loftinu, er slæm vísbending um framhaldið. Það eru gríðarlegir hagsmunir í húfi að við stöndum á rétti okkar í makríl, en lyppumst ekki niður fyrir hótunum ESB eins og nú er látið í veðri vaka.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert