Þjófarnir fengu jeppann að „láni“

Frá vettvangi í gærmorgun.
Frá vettvangi í gærmorgun. mbl.is

Lögregla höfuðborgarsvæðisins fann í morgun jeppabifreið sem notuð var við innbrot í verslunina Tölvuvirkni við Holtasmára í Kópavogi snemma gærmorguns. Innbrotsþjófarnir eru ófundnir en talið er að þeir hafi skipt um bifreið í Heiðmörk eftir þjófnaðinn. Rannsókn málsins er í fullum gangi.

Bifreiðin er að gerðinni Land Cruiser og leikur grunur á að mennirnir hafi fengið hana til reynsluaksturs á bílasölu á höfuðborgarsvæðinu. Í stað þess að skila jeppanum hafi þeir tekið hann traustataki og svo notað til að brjótast inn í verslunina. Þjófarnir brutust inn með því að bakka jeppanum á verslunina og brjóta sér þannig leið inn í hana.

Lögregla komst á sporið þegar brot úr bifreiðinni fundust í Heiðmörk. Þar fannst einnig þýfi úr innbrotinu. Jeppinn fannst svo í morgun en lögregla vill ekki gefa upp hvar.

Frétt mbl.is: „Keyrðu bara hliðina úr húsinu“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka