Matur hækkað um 9-16% á einu ári

mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Vörukarfa ASÍ hefur hækkað í flestum verslunarkeðjum frá því í september í fyrra þar til nú í byrjun október, nema hjá Nettó þar sem vörukarfan stendur nánast í stað milli mælinga. Mesta hækkunin á þessu tímabili er hjá Iceland eða um 16%, um 10% hjá Krónunni og 9% hjá Víði. Frá því í fyrra má sjá hækkanir í öllum vöruflokkum, mjólkurvörur og sætindi hafa þannig hækkað í öllum verslununum. Mest hafa grænmeti og ávextir hækkað en þar má sjá allt að 25% hækkun.

Sælgæti hefur hækkað mikið milli mælinga í öllum verslunum, mest er hækkunin hjá 10-11 (14,3%) en minnst hjá Hagkaupum (2,6%). Mjólkurvörur, ostar og egg hafa einnig hækkað í öllum verslunum, mesta hækkunin er hjá Iceland (12,8%) en minnsta hækkunin er hjá Samkaupum-Strax (0,4%), en benda má á að væntanlega er komin inn hækkun á heildsöluverði sem sett var á mjólk og mjólkurafurðir þann 1. október 2013 sem og sykurskattur sem kom þann 1. mars.

Drykkjarvörur er eini vöruflokkurinn sem hefur lækkað hjá helmingi verslana en mesta lækkunin er hjá Hagkaupum (3,9%) og hjá Samkaupum-Úrval (3,4%) en mesta hækkunin er hjá Iceland (17,4%) og hjá 10-11 og Krónunni (9%).

Grænmetið hækkar verð körfunnar

Nettó er eina verslunin þar sem verðbreytingar í einstaka vöruflokkum hafa ekki áhrif á verð vörukörfunnar, þó stór vöruflokkur eins og kjötvörur hafi lækkað í verði meðan ýmsar matvörur og sætindi hækka í verði. Hjá Iceland hækkar vörukarfan um 16,4% en hækkunin skýrist að stærstum hluta af hækkun á grænmeti og ávöxtum, kjötvörum og kornvörum. Hjá Krónunni hækkar vörukarfan um 9,9% en hækkunin skýrist að stærstum hluta af hækkun á grænmeti og ávöxtum, sætindum og kjötvörum.  

Verðbreytingar voru skoðaðar í eftirfarandi verslunum: Í lágvöruverðsverslununum Bónus, Krónunni, Nettó og Iceland; í almennu matvöruverslununum Hagkaupum, Nóatúni og Samkaupum-Úrvali, Tíu-ellefu, Samkaupum-Strax og Víði. 

mbl.is
mbl.is/Hjörtur
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert