Möguleg lokun Kolgrafafjarðar rædd

Grunnskólabörn tína síld í fjörunni við Kolgrafafjörð 5. febrúar 2013. …
Grunnskólabörn tína síld í fjörunni við Kolgrafafjörð 5. febrúar 2013. Á fundinum var farið yfir kosti varðandi fyrirbyggjandi aðgerðir til að koma í veg fyrir endurtekinn síldardauða í Kolgrafafirði mbl.is/Gunnar Kristjánsson

Málefni Kolgrafafjarðar voru rædd á samráðsfundi tveggja ráðuneyta, viðkomandi stofnana og heimamanna í Grundarfirði í dag. Á fundinum var farið yfir kosti varðandi fyrirbyggjandi aðgerðir til að koma í veg fyrir endurtekinn síldardauða í Kolgrafafirði í vetur auk þess sem drög að viðbragðsáætlun Umhverfisstofnunar voru kynnt.

Ýmsar hugmyndir voru ræddar, s.s. möguleikar á lokun fjarðarins, frekari opnun hans og fælingaraðgerðir af ýmsum toga. Er ljóst að verkefnið er óvenju vandasamt og margir óvissuþættir um árangur. Engar ákvarðanir um aðgerðir voru teknar á fundinum en stofnanir munu halda áfram vinnu við rannsóknir og mat á einstökum kostum, að því er fram kemur á vef umhverfisráðuneytisins.

Fundinn sátu fulltrúar umhverfis- og auðlindaráðuneytis, atvinnuvega- nýsköpunarráðuneytis, Umhverfisstofnunar, Hafrannsóknastofnunar, Vegagerðarinnar, bæjarstjórnar Grundarfjarðar, Áhaldahúss Grundarfjarðar og Náttúrustofu Vesturlands auk heilbrigðisfulltrúans í Grundarfirði og ábúenda á Eiði í Kolgrafafirði.  

Á fundinum kynnti fulltrúi Umhverfisstofnunar ennfremur drög að viðbragðsáætlun vegna hugsanlegs síldardauða í framtíðinni. Tekur áætlunin mið af lærdómi síðasta vetrar þar sem heimamenn voru í framlínu við björgun verðmæta og hreinsun fjörunnar.

Fyrr í dag áttu Sigurður Ingi Jóhannsson, umverfis- og auðlindaráðherra og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra fund með ofangreindum stofnunum þar sem kostir varðandi fyrirbyggjandi aðgerðir voru reifaðir.

Að loknum fundi buðu ábúendur á Eiði fundargestum í skoðunarferð …
Að loknum fundi buðu ábúendur á Eiði fundargestum í skoðunarferð við fjöruna í Kolgrafafirði.. mynd/umhverfisráðuneytið
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert