„Það er allt líf í stórhættu í firðinum. Einhverjir vilja meina að það væri slæmt að ef við lokum honum því fjörðurinn er stór hlekkur í lífkeðjunni, en ég held bara að ef við gerum ekkert þá verði hann enn hættulegri ef það verður annað eins slys,“ segir Bjarni Sigurbjörnsson bóndi á Eiði við Kolgrafafjörð.
Hvalhræ, sennilega af höfrung eða grindhval rak á land í lóni inn af firðinum þar sem gætir flóðs og fjöru. Bjarni segist ekki geta sagt til um hvers vegna hvalurinn drapst en hinsvegar hafi mikið af bæði hval, sel og fugli sótt í fjörðin síðan tugir þúsunda tonna af síld drápust þar síðasta vetur.
Að sögn Bjarna hafa íbúar við Kolgrafafjörð hafa miklar áhyggjur af því að sagan endurtaki sig enda hegði síldin sér með svipuðum hætti og áður. „Síldin er hérna rétt fyrir utan. Þeir eru að veiða hana hérna, við horfum bara á skipin. Ég held að allir sem komu að þessu máli í fyrra hafi stórar áhyggjur af því að það drepist meiri síld.“
Bjarni segir stöðuna í raun verri núna en síðasta vetur. „Að því leyti að ef það kemur síld inn fjörðinn aftur, þá eru enn meiri líkur á því að hún drepist af því að það er miklu minna súrefni í firðinum.“
Á samráðsfundi heimamanna, ráðuneyta og stofnana í gær var farið yfir ýmsa kosti varðandi fyrirbyggjandi aðgerðir til að koma í veg fyrir að síldardauðinn endurtaki sig. Þar á meðal var rætt um lokun fjarðarins, en einnig mögulegar fælingaraðgerðir eins og að blása lofti mót síldinni eða hengja upp keðjur.
Bjarni segir jákvætt að verið sé að skoða málið frá öllum hliðum. „En þetta eru ekki lausnir sem við vitum að virki. Þetta yrði bara tilraunstarfsemi. Menn hafa líka komið með þá hugmynd að byggja aðra brú, en það tryggir ekki að síldin drepist ekki. Eina örugga lausnin í málinu er að síldin komi ekki inn í fjörðinn og eina örugga lausnin til þess er að loka firðinum.“
Engin ákvörðun hefur verið tekin um hvað skal gera. Bjarni segist hafa fengið þau svör frá fulltrúa Vegagerðarinnar í gær að það sé vel framkvæmanlegt að loka firðinum.
„En það getur kostað fullt af peningum. Hinsvegar kostar líka fullt af peningum að láta síldina drepast. Þetta yrði dýr framkvæmd, en við værum allavega ekki að skemma neitt. Ef við lokum með grjóti er hægt að taka grjótið aftur síðar.“