Mótmælendum nýs Álftanesvegar hefur í annað sinn í dag verið vísað út af vinnusvæðinu af lögreglu þar sem framkvæmdir við veginn fara fram. Þeim var upphaflega vísað út af svæðinu í morgun og urðu við því. Hins vegar komu þeir sér fyrir við enda vinnusvæðisins á svæði sem ljóst var að yrði hluti vinnusvæðisins þegar það yrði stækkað eftir því sem framkvæmdir við veginn héldu áfram.
Lögreglan var kölluð til þegar kom að því að stækka þurfti vinnusvæðið skömmu fyrir klukkan þrjú. Var svæðið stækkað að sögn Ragnhildar Jónsdóttur, eins af mótmælendunum, og þeim síðan vísað út af því. Hún segir að þeim hafi verið tilkynnt að þau væru nú á vinnusvæðinu og verið boðnir tveir kostir, fara út fyrir vinnusvæðið sjálf eða vera handtekin fyrir að hlýða ekki þeim fyrirmælum. Þau hafi tekið þann kost að fara út fyrir svæðið.
„Þeir girtu utan um okkur og sögðu að núna væri þetta vinnusvæði,“ segir Ragnhildur. Hún segir lögregluna vera enn á staðnum og fylgjast með í bifreiðum á vegspotta fyrir ofan svæðið. Hún segir það átakanlegt að horfa á framkvæmdirnar. „Það er ekki hægt að horfa á þá ógrátandi mylja þetta niður.“