Hildur Sverrisdóttir borgarfulltrúi hefur ákveðið að bjóða sig fram í 1. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Hildur fer fram gegn Júlíusi Vífli Ingvarssyni, Þorbjörgu Helgu Vigfúsdóttur og Halldór Halldórssyni, sem öll falast eftir 1. sætinu hjá Sjálfstæðisflokknum.
Hildur hefur setið í borgarstjórn síðan í september, þegar hún tók við af Gísla Marteini Baldurssyni, en hún var varaborgarfulltrúi frá 2010. Hún situr í umhverfis- og skipulagsráði og er formaður hverfisráðs Vesturbæjar.
„Ég býð mig fram í forystusæti því að ég tel að þannig geti ég best orðið að liði við að tryggja áhrif sjálfstæðisstefnunnar á stjórn borgarinnar. Í þessu prófkjöri er mikilvægast að stillt sé upp öflugum lista sem hefur burði til vera í meirihluta á næsta kjörtímabili,“ segir Hildur.
Til að svo megi verða telur Hildur að nálgast verði borgarmálin á nýjan hátt og taka stöðuna út frá þeim raunveruleika sem sé í borginni í dag. „Staðreyndin er sú að í Reykjavík er margt ljómandi vel gert og sem borgarbúum hugnast. Á það verður að hlusta. Það þarf að hafa pólitískt hugrekki til að vera með góðum málum og á móti vondum, sama hvaðan þau koma,“ segir Hildur.
Hún gagnrýnir núverandi borgarmeirihluta fyrir að vera stefnulausan, með óljós markmið og enga forgangsröðun. „Stefnumótun er færð of mikið yfir á embættismannakerfið sem veldur því að reikningurinn til að láta enda ná saman er alltof oft sendur borgarbúum. Svo oft reyndar að á kjörtímabilinu hafa skattar og gjöld á meðalfjölskyldu í Reykjavík hækkað um sem nemur matarinnkaupum hennar í hálft ár.“
Hildur er 35 ára og lögfræðingur að mennt. Hún starfaði lengi sem lögfræðingur og lögmaður hjá fjölmiðlafyrirtækinu 365. Með laganámi starfaði hún sem framkvæmdastjóri V-dagsins, sem berst gegn kynferðisbrotum og einnig sem framkvæmdastjóri Reykjavík Dance Festival. Þar á undan gegndi hún stöðu verkefnisstjóra Jafningjafræðslunnar fyrir ÍTR.
Hildur hefur starfað erlendis, meðal annars á lögmannsstofu í London og í flóttamannabúðum í Serbíu. Hildur hefur um nokkurt skeið skrifað Bakþanka í Fréttablaðið og hún ritstýrði bókinni Fantasíur sem kom út í fyrrasumar.