Heimilt að leggja á auðlegðarskatt

Konan fór í mál vegna auðlegðarskatts.
Konan fór í mál vegna auðlegðarskatts. Ásdís Ásgeirsdóttir

Héraðsdómur Reykjavíkur komst í dag að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkinu hafi verið heimilt að leggja á auðlegðarskatt. „Telur dómurinn, eins og atvikum er háttað, að sá hópur skattaðila sem þurfi að sæta auðlegðarskatti, sé ekki svo fámennur að fari í bága við [...] ákvæði stjórnarskrárinnar,“ segir í niðurstöðu dómsins. Var því íslenska ríkið sýknað.

Ágreiningsefni málsins snerist um lögmæti auðlegðarskatts sem lagður var á konu eina gjaldárin 2010, 2011 og 2012 og „viðbótarauðlegðarskatt“ sem lagður var á hana gjaldárin 2011 og 2012. Krafðist hún þess að íslenska ríkið greiddi til baka 36 milljónir króna sem hún hefur greitt í auðlegðarskatt.

Í niðurstöðu dómsins segir að það sé vissulega rétt að í 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar segi að eignarrétturinn sé friðhelgur og að engan megi skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þurfi þá til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir. „Það er eitt megineinkenni skatthugtaksins að skatta beri að leggja á eftir almennum efnislegum mælikvarða og vissri jafnræðisreglu, þannig að skattþegnum sé ekki mismunað óeðlilega. Þetta þýðir m.a. að skattur verði ekki heimtur af tilteknum aðilum, þannig að öðrum, sem eins eða líkt stendur á hjá, er sleppt.“

Þá segir að í dómaframkvæmd hafi löggjafinn verið talinn hafa víðtækt vald til að ákveða hvaða atriði skuli ráða skattlagningu, jafnvel þó slík ákvörðun feli í sér eignaskerðingu. Skilyrði er þó ávallt að hún byggist á almennum efnislegum mælikvarða og að gætt sé jafnræðisreglna. 

„Er almenni löggjafinn talinn hafa víðtækt vald til að ákveða hvaða atriði skuli ráða skattlagningu að því marki að gætt sé greindra hlutlægnis- og jafnræðissjónarmiða. Í þessu sambandi er einnig litið til skatthlutfalls og þess gildistíma sem lögunum er ætlaður. Telur dómurinn, eins og atvikum er háttað, að sá hópur skattaðila sem þurfi að sæta auðlegðarskatti, sé ekki svo fámennur að fari í bága við greind ákvæði stjórnarskrárinnar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert