Bakslag í baráttu hinsegin fólks

Anna Pála Sverrisdóttir, formaður Samtakanna 78.
Anna Pála Sverrisdóttir, formaður Samtakanna 78. Kristinn Ingvarsson

Anna Pála Sverrisdóttir, formaður Samtakanna 78, segir að færa megi fyrir því gild rök að bakslag sé komið í réttindabaráttu hinsegin fólks á Íslandi. „Ekki misskilja mig,“ segir hún.

„Við stöndum sannarlega betur að vígi en hinsegin fólk í flestum öðrum löndum en umræðan í kringum Gleðigönguna í sumar var til marks um það að enn er mikið verk að vinna. Sem frægt er fór gangan fyrir brjóstið á einhverjum og umræðan sem fylgdi í kjölfarið var í meira lagi athyglisverð. Fólki fannst það allt í einu vera í fullum rétti þegar það beraði fordóma sína í garð hinsegin fólks og veittist að grundvallarmannréttindum okkar. Andinn í umræðunni var þessi: „Þið eruð komin að þeim mörkum sem við setjum ykkur. Hingað og ekki lengra!“ Þetta er vitaskuld ekki ásættanlegt. Hinsegin fólk mun ekki unna sér hvíldar fyrr en það nýtur fullra mannréttinda eins og aðrir í þessu þjóðfélagi.“

Heildarmyndin er góð, að mati Önnu Pálu. Mun auðveldara er fyrir fólk að koma út úr skápnum á Íslandi í dag en fyrir tíu árum, að ekki sé talað um fyrir þrjátíu árum. Hún segir eigi að síður merkilega mikið um það ennþá að fólk sé hrætt við að taka þetta mikilvæga skref. Slíkar sögur heyri hún nær daglega í sínu starfi sem formaður.

„Sem betur fer njóta langflestir góðs stuðnings þegar þeir koma út úr skápnum, það á til dæmis við um mig, en því miður ekki allir. Það er mjög frelsandi að taka þetta skref og lífið verður svo miklu betra á eftir. Þess vegna hvet ég alla sem eru tvístígandi að láta slag standa. Það er hræðilega sorglegt þegar fólk lokast inni í skápnum – jafnvel áratugum saman.“

Nánar er rætt við Önnu Pálu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka