Kvennréttindabarátta 20. aldar snérist um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, en kvennréttindabarátta 21. aldar mun snúast um menningarleg og félagsleg réttindi. Þetta sagði Sigríður María Egilsdóttir á ráðstefnu sem BBC stóð fyrir um konur og framtíðarmarkmið þeirra. Ræða hennar vakti mikla athygli.
100 konur sóttu ráðstefnuna, en henni lauk í dag með ræðu Sigríðar Maríu. Óhætt er að segja að ræða hennar hafi vakið mikla athygli. Stjórnendur ráðstefnunnar hældu Sigríði fyrir sterk lokaorð á vel heppnaðri ráðstefnu.
Sigríður María sagði frá ömmu sinni, sem fæddist 1936, og baráttu hennar fyrir að fá að fara í nám í hjúkrunarfræði í Bretlandi. Faðir hennar neitaði henni um að fara, en hún lét það ekki stöðva sig heldur fór út í nám þar sem nýr heimur opnaðist fyrir henni.
Sigríður María sagði að það væri ekki að ástæðulausu sem rætt væri um mikilvægi menntunar fyrir konur. Hún benti á að 2/3 þeirra sem ekki geta lesið eða skrifað í heiminum væru konur. 70% þeirra sem teldust fátækir í heiminum væru konur. Rannsóknir sýndu að menntaðar konur eignuðust færri börn en ómenntaðar konur og einnig að menntun kvenna hefði mikla efnahagslega þýðingu fyrir samfélög.
Sigríður María sagðist vera stolt yfir því að Ísland væri í fyrsta sæti á lista yfir þau lönd þar sem jafnréttið væri mest samkvæmt nýrri samantekt World Economic Forum, fimmta árið í röð. Hún sagði að því færi samt fjarri að fullu jafnrétti væri náð á Íslandi. Kannanir sýndu að launamunur kynjanna væri um 10%, mun færri konur en karlar væru í stjórnum fyrirtækja á Íslandi og ofbeldi gegn konum væri enn stórt vandamál á Íslandi.
Sigríður María spurði hvers vegna menntun kvenna væri ekki talin sjálfsagður hlutur á 21. öld. Hún sagði að svarið lægi í því að víða um heim væri litið á karla sem æðra kyn og að konur ættu ekki að hafa sama rétt og karlar.
Sigríður María sagði að á 20. öld hefðu konur barist fyrir réttindum til að taka fullan þátt í þjóðfélaginu, þ.e. fyrir pólitískum og borgaralegum réttindum. Á 21. öld myndi jafnréttisbaráttan snúast um menningarleg og félagsleg réttindi og hvernig fólk hugsar meðvitað og ómeðvitað um konur. Hún sagði að það kynni að virðast erfiðara að breyta úreltum reglur en að koma í veg fyrir að stúlkur fengju að mennta sig, en það mætti ekki gleyma því að veröld okkar væri stjórnað af hugsunum og hugmyndum, og því væri í okkar valdi að breyta þeim.
Sigríður María vék í lok ræðu sinnar að Malölu Yousafzai sem Talibanar í Pakistan reyndu að ráða af dögunum fyrir að berjast fyrir menntun stúlkna. Hún hrósaði henni fyrir hugrekki.
Ræða Sigríðar Maríu í heild sinni