„Aflagögnin sem við höfum verið að vinna með undanfarna áratugi hafa að öllum líkindum verið kolröng og ef þú ert með röng gögn færðu ranga niðurstöðu.“
Þetta segir Guðmundur J. Óskarsson, fiskifræðingur, meðal annars um ástæður þess að vinnuhópur um stofnmat innan Alþjóðahafrannsóknaráðsins, ICES, hafnaði því að leggja stofnmat vinnuhópsins til grundvallar við ráðgjöf um makrílveiðar á næsta ári.
Guðmundur á sæti í vinnuhópnum og í viðtali um þetta mál í Morgunblaðinu í dag segir hann að himinn og haf sé á milli fyrirliggjandi gagna frá rannsóknarleiðöngrum og merkingargögnum um mat á stofninum og stofnmati ICES.