„Þetta er bara ömurlegt. Þetta eru gjafir sem börn hafa útbúið handa öðrum börnum og svo er einhver sem tekur þær,“ segir Telma Ýr Birgisdóttir. Brotist var inn í bíl hennar í nótt og gjöfum stolið sem höfðu verið útbúnar af natni fyrir verkefnið „Jól í skókassa“ handa munaðarlausum börnum í Úkraínu.
Telma vaknaði upp við símtal frá lögreglu í morgun, en vegfarandi hafði tilkynnt um að brotist hefði verið inn í bíl hennar sem var lagt á Njarðargötu í miðborg Reykjavíkur, skammt frá heimili hennar.
Greinilegt var að þjófarnir lögðu talsvert á sig til að komast inn í bílinn. „Það var búið að spenna upp hurðina og brjóta báðar rúðurnar aftur í til að ná þessu,“ segir Telma.
Í bílnum voru sjö skókassar sem börn í æskulýðsstarfi KFUM og KFUK höfðu lagt mikla vinnu og sál í að safna saman og föndra. Auk þess hafði 6 ára gömul bróðurdóttir Telmu útbúið eina gjöfina.
„Það er svolítil vinna að pakka þessu inn því það þarf að pakka boxinu sér og lokinu sér. Ásamt því voru börnin sum búin að skrifa bréf eða teikna myndir og setja með í kassann,“ segir Telma.
Í hverjum kassa voru gjafir úr fimm flokkum sem valdar höfðu verið af kostgæfni, þ.e. leikföng, skóladót, hreinlætisvörur, sælgæti og föt. Telma segir að allir kassarnir hafi verið vandlega yfirfarnir og þarna hafi því verið á ferðinni hinar „fullkomnu skókassagjafir“.
Jól í skókassa er alþjóðlegt verkefni sem hófst hér á landi árið 2004 fyrir tilstuðlan ungs fólks innan KFUM og KFUK. Á þeim tæpa áratug sem liðin er hafa ríflega 33.000 gjafir verið sendar til Úkraínu, þar sem þeim er dreift á munaðarleysingjahæli, barnaspítala og til barna einstæðra mæðra sem búa við sára fátækt.
Telma segir að eftir hver jól sé strax hafist handa við að safna gjöfum næsta árs „Vonandi getum við gert einhverjar gjafir í viðbót en þessar gjafir gerum við allavega ekki upp á nýtt. Það er búið að skemma það sem börnin voru að gera.“