Við álagningu auðlegðarskatts og viðbótarauðlegðarskatts sl. sumar voru um 15% skattsins lögð á 72 fjölskyldur, sem hver um sig þurfti að greiða allt aflafé og gott betur í skatt af eignum sínum.
15 fjölskyldur til viðbótar áttu ekki fyrir sköttum þegar allt var talið. Þessar 87 fjölskyldur voru með 1.035 milljónir í samanlagðar tekjur en þurftu að greiða 1.881 milljón í skatta, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
Þetta kemur fram í úttekt Páls Kolbeins, hagfræðings hjá Ríkisskattstjóra, á álagningu auðlegðarskatts sem birt er í Tíund, tímariti embættisins. Auðlegðarskatturinn er lagður á óháð tekjum og kemur fram að 192 fjölskyldur þurftu að greiða meira en helming tekna sinna í skatt af eignum. Fremur lítill hópur þeirra sem greiða skattinn stendur undir stórum hluta hans. 2,2% fjölskyldna landsins greiddu auðlegðarskatt og töldu fram 676,5 milljarða í eignir umfram skuldir, sem eru 48,3% skuldlausra eigna landsmanna.