Íslensk kjötsúpa var boðin gestum á Skólavörðustígnum í dag, fyrsta vetrardag. Þetta er ellefta árið í röð sem vetri er fagnað á þennan hátt og að þessu sinni var dagurinn helgaður minningu Jóhanns G. Jóhannssonar tónlistar- og myndlistarmanns en hugmyndin að deginum kom upphaflega frá honum. Jóhann samdi auk þess lagið „Íslensk kjötsúpa” sem er fyrir löngu orðið einn af gimsteinum dægurlagasögunnar.
Það eru sauðfjárbændur, Íslenskt grænmeti og verslunar- og fyrirtækjaeigendur á Skólavörðustígnum sem bjóða gestum og gangandi að bragða á ilmandi, heitri og bragðgóðri súpu. Alls var boðið upp á kjötsúpu á fimm stöðum á Skólavörðustígnum og það eru margir af fremstu matreiðslumönnum landsins sem gefa vinnu sína á þessum degi. Líkt og venjan hefur verið undanfarin ár setti Úlfar Eysteinsson kjötsúpu á fyrstu diskana fyrir fanga Hegningarhússins á Skólavörðustíg.
Feðgarnir Friðgeir Ingi og Eiríkur á Hótel Holti stóðu við verslun Eggerts feldskera, Stefán Melsteð og Sigurgísli á SNAPS ausa sinni súpu við Handprjónasambandið. Fyrir utan Sjávargrillið skenkir Gústav Axel Gunnlaugsson og venju samkvæmt verða Úlfar Eysteinsson og félagar á Þremur Frökkum við Hegningarhúsið og við Ostabúðina verða svo Jóarnir tveir við pottana að ausa sælkerasúpunni fyrir gesti.
Einstakt andrúmsloft hefur myndast á Skólavörðustígnum í hvert sinn sem vetri er fagnað með krassandi kjötsúpu. Margir skemmtikraftar láta ljós sitt skína við þetta tækifæri, leikið verður á harmonikkur, flutt verða kvæði, listaverk af ýmsu tagi verða til sýnis auk þess tískusýning á ullarvörum verður haldin fyrir utan húsnæði Handprjónasambandsins.