Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra vill að sveitarfélögum sé heimilt að lækka eða fella niður fasteignaskatta ef þau kjósa svo. Þetta sagði hún á aðalfund Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu í gær.
Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar er kveðið á um að lágmarksútsvar verði afnumið á kjörtímabilinu. Hanna Birna sagði að frumvarp væri í undirbúningi og væri það liður í því að færa valdið í frekari mæli til sveitarfélaga og mætti huga að fleiri slíkum breytingum á næstu árum.
„Ég er einnig með til skoðunar reglur um álagningu annarra gjalda. Ég tel, svo dæmi sé tekið, að sveitarfélögum eigi að vera heimilt að lækka eða fella niður fasteignaskatta ef þau kjósa svo. Þá tel ég einnig að við þurfum að breyta reglum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga með þeim hætti að úthlutanir hans hafi ekki letjandi áhrif á sveitarfélögin til að lækka skatta og gjöld. Sjálfsagt mætti finna fleiri dæmi um það hvernig sveitarfélög geta bætt samkeppnisstöðu sína,“ sagði Hanna Birna í ræðu sinni.
Innanríkisráðherra varpað fram þeirri hugmynd á fundinum að fjármagna bæði byggingu og rekstur samgöngumannvirkja með öðrum hætti en úr ríkissjóði. Þannig mætti hugsanlega flýta framkvæmdum og nefndi ráðherra að á höfuðborgarsvæðinu væri Sundabraut dæmi um verkefni sem fallið gæti undir þessa leið.